Sean Penn sagður undir smásjá stjórnvalda

10.01.2016 - 09:28
epa05094928 (FILE) A composite image of three file photos showing (L-R) alleged Mexican drug lord Joaquin 'El Chapo' Guzman in Los Mochis, Mexico, 08 January 2016; US actor Sean Penn in London, Britain, 16 February 2015; and Mexican actress Kate
Guzman, Penn og Kate del Castillo sem leiddi þá saman.  Mynd: EPA  -  EPA FILES
Bandaríski leikarinn Sean Penn og mexíkóska leikkonan Kate del Castillo eru sögð sæta rannsókn stjórnvalda í Mexíkó vegna viðtals sem Penn tók við Joaquin Guzman, einn alræmdasta fíkniefnabarón heims, fyrir Rolling Stone og birtist á vef blaðsins í gærkvöld. Bæði Penn og Rolling Stone sæta mikilli gagnrýni fyrir samkomulag sem gert var við Guzman um að hann yrði að gefa leyfi áður en viðtalið yrði birt.

Viðtal Sean Penn við Guzman hefur vakið heimsathygli. Leikarinn sjálfur lét sér þó fátt um finnast – stóð fyrir góðgerðarsamkomu í gærkvöld fyrir fórnarlömb jarðskjálftans á Haítí og mætti þangað í fylgd fyrrverandi eiginkonu sinnar, Madonnu.

Meðal gesta voru stórstjörnur á borð við Justin Bieber, Pamela Anderson og Lana Del Rey. Penn, sem stýrði samkomunni ásamt fréttamanninum Anderson Cooper, minntist ekki einu orði á samskipti sín og Guzman þrátt fyrir að hafa haldið nokkrar ræður. 

En Penn kann hugsanlega að vera í vandræðum vegna viðtalsins. Fréttavefur ABC hefur eftir embættismönnum í Mexíkó að leikarinn og mexíkóska leikkonan Kate del Castillo, séu til rannsóknar vegna viðtalsins. ABC fullyrðir einnig að bandarísk stjórnvöld vilji ekki gefa neitt upp um hvort viðtal Penn við fíkniefnabaróninn hafi leitt til handtöku hans.

Blaðamenn hafa sömuleiðis gagnrýnt Penn og Rolling Stone fyrir viðtalið .Vefur Mashable fjallar um málið en í byrjun blaðagreinarinnar kemur fram að Rolling Stone hafi gert samning við Guzman um að leita eftir leyfi hans áður en hún var birt.

Blaðið tekur fram að fíkniefnabaróninn hafi ekki gert neinar athugasemdir við innihaldið. Blaðamenn hjá New York Times, New Republic og Washington Post eru í hópi þeirra sem hafa gert athugasemdir við þessi vinnubrögð blaðsins.

Guzman, sem er aldrei kallaður annað en „Sá stutti“ eða „El Chapo“, slapp á ævintýrlegan hátt úr öryggisfangelsi fyrir hálfu ári. Hans hefur verið ákaft leitað af bæði bandarískum og mexíkóskum stjórnvöldum. Hann var handtekinn á föstudagskvöld og skömmu seinna greindi ríkissaksóknari í Mexíkó frá því að hégóminn hefði orðið Guzman að fall. Hann hefði haft áhuga á að gera um sig heimildarmynd og sú sjálfsdýrkun varð til þess að auðvelda yfirvöldum leitina að honum.