Scalia látinn, átök um hæstarétt framundan

14.02.2016 - 01:25
epa05159249 (FILE) A file photo dated 08 February 2016 shows US Supreme Court Associate Justice Antonin Scalia speaking at the Economics Club of New York in New York, New York, USA. Reports state on 13 February 2016 state that Antonin Scalia has been
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Bandaríski hæstaréttardómarinn Antonin Scalia, einn íhaldsamasti dómarinn við Hæstarétt, er látinn, 79 ára að aldri. Andlát hans gæti hæglega valdið straumhvörfum í störfum hæstaréttar og þar með lagatúlkun í landinu öllu. 9 dómarar starfa í hæstarétti og hafa íhaldsamir dómarar haft þar meirihluta undanfarin ár. Búast má við því að hart verði tekist á um eftirmann hans, en hæstiréttur hefur ítrekað gripið inn í ákvarðanir forseta og ríkisstjórnar með afgerandi hætti.

Nýverið kom dómstóllinn til dæmis í veg fyrir gildistöku nýrra laga Obama-stjórnarinnar um málefni innflytjenda og í vikunni frestaði hæstiréttur gildistöku lagabálks um losun gróðurhúsalofttegunda, sem setti orku- og iðnaðaðarrisum mun strangari skorður hvað loftmengun snertir en áður hafa þekkst.

Nú er lag fyrir Obama að snúa valdahlutföllunum í réttinum við með því að skipa fimmta, frjálslynda dómarann í hæstarétt áður en hann lætur af embætti, og hefur hann þegar lýsti því yfir að hann hyggist fylla skarð Scalias áður en árið er úti. Repúblikanar á þingi munu þó eflaust gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að svo verði. Takist þeim að tefja skipan hæstaréttardómara fram eftir ári mun kosningabaráttan án efa snúast að einhverju leyti um það mál.

Ronald Reagan skipaði Scalia í hæstarétt árið 1986. Þrír af átta eftirlifandi hæstaréttardómurum eru komnir á áttræðisaldur. Hver sá sem fer með sigur af hólmi í forsetakosningunum í haust mun því að öllum líkindum hafa áhrif á valdahlutföll og áherslur hæstaréttar langt fram í tímann. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV