SAS aflýsir hundrað flugferðum í Noregi

13.09.2017 - 16:47
epa03531021 (FILE) A file photo dated 03 February 2009 showing Scandinavian airline SAS MD-80 and Boeing 737 aircrafts parked at the gates at terminal 4 at Arlanda Airport north of Stockholm, Sweden. Union representatives at troubled Scandinavian carrier
 Mynd: EPA  -  SCANPIX SWEDEN FILE
Norræna flugfélagið SAS hefur aflýst um það bil eitt hundrað flugferðum í Noregi á morgun vegna yfirvofandi verkfalls. Á sjötta hundrað flugmenn leggja niður störf á miðnætti hafi ekki samist við flugfélagið um kaup og kjör fyrir þann tíma.

Samninganefndir flugmanna og SAS komu til fundar í dag hjá ríkissáttasemjara í Ósló. Ekki hafa borist upplýsingar um hvort nokkur árangur hafi náðst. Talsmaður flugmanna sagði fyrir fundinn að beðið væri eftir nýju tilboði frá SAS. Áður en það kæmi væri ekki um neitt að ræða.

Forstjóri SAS í Noregi segir að aðgerðir flugmanna stefni framtíð fyrirtækisins í hættu. Áætlun félagsins annars staðar á Norðurlöndum verður samkvæmt áætlun á morgun.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV