„Sársaukamörkin liggja við 25%“

18.05.2017 - 17:58
Íslendingar sætta sig ekki við að vörur sem hér eru seldar séu á meira en 25% hærra verði en í nágrannalöndunum. Þar liggja sársaukamörkin. Þetta segir Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri Ikea. Ikea-vörur eru nær undantekningalaust dýrari hér en í Noregi og munar stundum 70 eða 80% á verði. Verðmunurinn er mismikill og virðist ekki endilega tengjast þyngd hlutanna eða stærð.

Þannig er Vimle sófi 22% dýrari hér en í Noregi en Skogaby sófi 66% dýrari. Molger baðherbergiskollur er 59% dýrari hér en Ingatorp eldhúsborð 24% dýrara. Það er líka mikill munur á léttum smávörum. Enudden salernisbursti kostar 468 krónur í Noregi á verðlagi dagsins í dag en 795 krónur á Íslandi, er 70% dýrari. Fislétt og marflöt Toga diskamotta er 50% dýrari og sprittkerti, 24 í pakka eru 70% dýrari hér. Trégaffallinn Rört er bara 25% dýrari á Íslandi en hraðsuðupotturinn Vardesatta er methafinn í óformlegri könnun Spegilsins, 88% dýrari hér en í Noregi.

Útlit fyrir að H&M verði dýrari hér

Ikea er ekkert einsdæmi. Vísir fjallaði í gær um verðmun á vörum frá fatarisanum H&M sem hyggst opna hér verslanir síðar á árinu. Verð í íslenskum krónum er nú tilgreint á verðmiðum í verslunum í Skandinavíu. Vísir tók dæmi um stuttbuxur sem eiga að kosta 45% meira hér en í Noregi.

Böl eyþjóðarinnar?

Er óhjákvæmilegt að alþjóðlegar verslanakeðjur selji vörur dýrara hér á landi, þurfa Íslendingar einfaldlega að gjalda það dýru verði að vera fámenn og afskekkt eyþjóð? Spegillinn ræddi þetta við Ólaf Arnarson, formann Neytendasamtakanna, og Þórarin Ævarsson, framkvæmdastjóra Ikea á Íslandi. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Ólafur Arnarson.
Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi