Sarkozy í vandræðum

17.02.2016 - 13:57
Erlent · Evrópa · Frakkland · Sarkozy
Mynd með færslu
 Mynd: TF 1
Hafin er formleg rannsókn á því hvort Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, hafi tekið við ólöglegum fjárframlögum í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningar árið 2012. Sarkozy tapaði þá fyrir núverandi forseta, Francois Hollande.

Bygmalion hneykslið

Málið er nefnt Bygmalion hneykslið því grunur leikur á að samnefnt almannatenglslafyrirtæki hafi rukkað flokk Sarkozys, Les Républicains eða LR en ekki kosningasjóð flokksins. Samkvæmt frönskum lögum má aðeins verja tiltekinni upphæð til koningabaráttu og saksóknarar rannsaka nú hvort Sarkozy hafi brotið þessi lög. Grunur leikur á að hærri upphæð hafi verið eytt í kosningabaráttuna en leyfilegt er.  Bygmalion hafi falið útgjöld til kosningabaráttunnar með því að fá flokkinn til að greiða fyrir þjónustu fyrirtækisins. Þannig hafi kostnaður við kosningabaráttuna virst vera innan löglegra marka. 

Sarkozy segist ekkert hafa vitað

Sarkozy var yfirheyrður í allan gærdag vegna málsins, en hann heldur fram sakleysi sínu, hann hafi ekki haft hugmynd um að meiru hafi verið eytt en lög leyfa. Sarkozy þarf að verjast í fleiri málum, hann var í haldi lögreglu í skamma stund fyrir tveimur árum vegna gruns um að hann hefði reynt að hafa áhrif á dómara sem var að rannsaka fjármál hans.

Framkvæmdastjóri og gjaldkeri kosningabaráttu Sarkozys og tveir aðrir sæta þegar rannsókn vegna reikninga Bygmalion, sem alls námu meira en tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna.

Íhugar framboð að nýju

Málið kemur sér illa fyrir Sarkozy því almennt er talið að hann hyggist bjóða sig fram þegar forsetakosningar verða á næsta ári. Hann hefur raunar neitað að staðfesta að hann hyggi á framboð, það sé ákvörðun sem ekki verði tekin nú. Þegar Sarkozy tilkynnti 2014 að hann ætlaði að hefja þátttöku í stjórnmálum að nýju naut hann umtalsvert meiri vinsælda en Hollande. 

En það er ekki sjálfgefið að Sarkozy verði frambjóðandi Les Républicains, innan LR nýtur Alain Juppé meiri stuðnings. Juppé er meðal annars fyrrverandi forsætisráðherra og borgarstjóri í Bordeaux. 

 

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV