Sannleikurinn um HM 2006 birtur á morgun

03.03.2016 - 04:09
epa05019196 (FILE) A file photograph shows Honoray president of FC Bayern Munich Franz Beckenbauer leaving the pitch after the soccer friendly match between FC Bayern Munich and Real Madrid at the Allianz Arena stadium in Munich, Germany, 13 August 2010.
Franz Beckenbauer stýrði skipulagsnefnd HM 2006 í Þýskalandi.  Mynd: EPA  -  DPA FILE
Þýska knattspyrnusambandið, DFB, ætlar að svara ásökunum um spillingu vegna heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem fram fór í landinu árið 2006. Haldinn verður blaðamannafundur á morgun, en sambandið er ásakað um að hafa keypt mótið á sínum tíma.

HM 2006 heppnaðist vel og var mikil ánægja með mótið bæði innan Þýskalands sem og um allan heim. Mótið var vel skipulagt og keppendur og stuðningsmenn heppnir með veður mánuðinn sem þar fór fram. Ævintýrið gæti þó þó fengið súran endi reynist rannsóknablaðamennska þýska fréttamiðilsins Spiegel vera á rökum reist. Í október greindi blaðið fá því að DFB hafi greitt stjórnarmönnum Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, mútur fyrir atkvæði.

Forseti og framkvæmdastjóri segja upp

Að sögn Spiegel fékk DFB rúmar 10 milljónir svissneskra franka að láni frá Robert Louis-Dreyfus, þáverandi stjórnarformanni Adidas. Féð var notað til þess að greiða fjórum stjórnarmönnum FIFA fyrir atkvæði. Af 24 stjórnarmönnum greiddu 12 atkvæði með Þýskalandi, 11 með annarri þjóð og einn stjórnarmaður sat hjá. Heimildir Spiegel herma að DFB hafi lagt andvirði lánsins inn á reikning í eigu FIFA.

Wolfgang Niersbach, forseti DFB, sagði upp í febrúar vegna málsins og Helmut Sandrock, framkvæmdastjóri þess og einn skipuleggjenda mótsins árið 2006, hætti snarlega. Franz Beckenbauer, sem stýrði skipulagsnefnd HM 2006, neitar því alfarið að um einhverja spillingu hafi verið að ræða. Hann segir lánsféð hafa verið notað til þess að tryggja styrkveitingu frá FIFA og viðurkennir að hafa gert mistök. Málstaður hans veiktist hins vegar talsvert þegar hann viðurkenndi að hafa undirritað fjölda skjala án þess að hafa lesið þau.

Reyna að fá lánsféð til baka

DFB fékk lögfræðifyrirtæki til þess að fara í gegnum reikninga sambandsins og birtir það niðurstöður sínar á morgun. Stjórn knattspyrnusambandsins fær að líta yfir þær áður en blaðamannafundur verður haldinn. Reinhardt Rauball, sem gegnir stöðu forseta DFB, segir sambandið vilja komast að hinu rétta í málinu. Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar hefur DFB reynt, með aðstoð lögmanna, að fá féð sem fengið var að láni hjá Adidas endurgreitt frá Beckenbauer og félögum hans í skipulagsnefndinni.

Yfirvöld í Frankfurt rannsaka Niersbach, Theo Zwanziger, sem gegndi starfi forseta DFB á undan Niersbach, og Horst Schmidt, fyrrum framkvæmdastjóra sambandsins, vegna skattaundanskota. Leitað hefur verið á heimilum þeirra og skrifstofum DFB í Frankfurt. Þeir neita allir sök.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV