Sannir Finnar tala ekki sænsku

26.02.2016 - 17:38
epa02939632 Finnish Parliament votes on the European Financial Stability Facility amendments at the Parliament House in Helsinki, Finland, 28 September 2011.  EPA/MAURI RATILAINEN **FINLAND OUT**
Finnska þingið.  Mynd: EPA  -  COMPIC
Þingforseti finnska þingsins, Maria Lohela, braut gegn venju þegar Urban Ahlin, sem er forseti sænska þingsins, kom í heimsókn til Helsingfors nýlega, þá töluðu forsetarnir saman á ensku en ekki sænsku. Allir fyrri fundir þingforseta þessara ríkja hafa verið á sænsku. Forystumenn Finnlandssvía eru allt annað en sáttir við þessa breytingu.

Stefan Wallin sem situr á þingi fyrir flokka Finnlandssvía segir að það sé óþolandi að í landi þar sem eru tvö opinber mál og sænska annað þeirra sé talað við Svía á opinberum vettvangi á ensku og hann hunsaði tilmæli um að fundurinn yrði á ensku. Það sé álíka og að segja hjónum allt í einu að þérast.

Lohela er þingmaður Sannra Finna og ýmsir í þeirra hópi telja að leggja eigi sænskuna af sem opinbert mál. Til dæmis sé það of dýrt fyrir finnska ríkisútvarpið að halda úti dagskrá á sænsku. Um fimm prósent Finna eiga sænsku að móðurmáli. 

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV