Sandur úr Landeyjahöfn til sölu

14.12.2011 - 22:18
Mynd með færslu
Herjólfur sigldi aftur til Landeyjahafnar í dag eftir rúmlega fimm vikna lokun hennar. Sandur úr höfninni er nú seldur í Eyjum til styrktar Siglingastofnun.

Það hefur verið skortur á salti undanfarna hálkudaga í  Eyjum. Ingimar Georgsson, kaupmaður, segist meðal annars  hafa fengið hráefni frá frystihúsunum í bænum. En auk þess sótti hann hluta af því mikla magni af sandi sem hefur lokað Landeyjahöfn undanfarnar vikur. Ingimar segist hafa selt nokkra tugi kílóa af sandi. Hann segir að allir muni græða, en ágóði af sölu  sandsins rennur til Siglingastofnunar.

Ágóðinn hefði þó orðið meiri hefði hann getað siglt til  Landeyjahafnar en hann hefði orðið að fara til Þorlákshafnar og keyra  út í Landeyjahöfn og svo til baka. Af hverju seldu kílói fari hundrað krónur í formi virðisaukaskatts til Steingríms  fjármálaráðherra. Kostnaðurinn sé  annað eins þannig að Siglingastofnun ætti að fá 2-300 krónur út úr  kílóinu ef allt gangi upp.