Sanders sigrar í Maine

epa04551282 Independent Senator from Vermont Bernie Sanders speaks during the US Senate Energy and Natural Resources Committee markup of legislation to approve the Keystone XL pipeline project, on Capitol Hill in Washington DC, USA, 08 January 2015.  EPA
 Mynd: EPA  -  EPA
Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders er sigurvegar forkosninga demókrataflokksins í Maineríki. Hann er með öruggt forskot á Hillary Clinton þegar eftir á að telja fjórðung atkvæða. Bandarískar fréttastöðvar greina frá þessu.

Sanders hefur nærri þrjátíu prósentustiga forskot á Clinton í ríkinu. Maine er fámennt ríki og því fremur fáir kjörmenn í boði. Sanders nær þó að saxa örlítið á öruggt forskot Clinton með sigrinum því ljóst er að hann fær í það minnsta 14 af kjörmönnunum 25 sem eru í boði þegar þetta er skrifað. Maine er jafnframt áttunda ríkið sem Sanders hefur betur gegn Clinton af þeim nítján sem lokið hafa forkosningum. Af þeim fjórum ríkjum sem kosið var í um helgina sigraði Sanders í þremur.

Næstu forkosningar demókrataflokksins fara fram í Michigan og Missisippi á þriðjudag.

Sanders og Clinton áttust við í kappræðum í Michiganríki sem hefur verið mikið í sviðsljósinu vegna mengunar í vatni bæjarins Flint. Sanders kallaði, eins og hann hefur gert áður, eftir uppsögn ríkisstjóra Michigan fyrir að vera ekki búinn að taka á málinu. Clinton tók undir orð hans.