Sanders með öruggt forskot á Clinton

epa05111875 Vermont Senator and Democratic presidential candidate Bernie Sanders speaks to a crowd of voters during a campaign appearance at the UMBA Hall in Underwood, Iowa, USA, 19 January 2016. The first in a series of intra-party contests to determine
 Mynd: EPA
Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders hefur náð miklu forskoti á Hillary Clinton í New Hampshire-ríki samkvæmt nýrri könnun sjónvarpsstöðvarinnar CNN sem birt var í kvöld. Þrjár vikur eru þar til prófkjör demókrataflokksins verður haldið í ríkinu.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var af ríkisháskólanum í New Hampshire, myndu 60 prósent kjósenda velja Sanders ef kosið væri nú, en 33 prósent Clinton. Fylgi Martin O'Malley er um eitt prósent. Síðustu kannanir hafa sýnt mun minna bil á milli frambjóðendanna, en í sjö af þeim átta könnunum sem vefsíðan RealClear Politics hafa tekið saman í ríkinu í janúar er Sanders með forskot.

55 prósent aðspurðra í könnun CNN telja Clinton óheiðarlegasta frambjóðendanna þriggja, en aðeins tvö prósent nefndu nafn Sanders í þeim lið. Sanders þótti bæði hafa mestu kostina í forsetahlutverkið og búa yfir bestu getunni til þess að hafa stjórn á hagkerfinu af frambjóðendunum. Flestir nefndu nafn Clinton þegar spurt var hver frambjóðendanna myndi helst ráða við vígasveitir íslamska ríkisins. 91 prósent telja Sanders góðan kost sem frambjóðanda demókrataflokksins, 65 prósent segja Clinton góðan kost og 26 prósent O'Malley.
Könnunin var gerð áður en kappræður frambjóðendanna fóru fram á sunnudagskvöld.

Lítill munur í Iowa

Áður en kosið verður í New Hampshire munu kjósendur Iowa-ríkis ganga til prófkjörs. Þar er mjótt á mununum í nýjustu könnunum. Meðalfylgi úr þeim sex könnunum sem RealClear Politics hefur tekið saman í janúar er Clinton í hag, tæp 47 prósent hyggjast kjósa hana en tæp 43 prósent kjósa Sanders. Prófkjörin í New Hampshire og Iowa þykja gefa góðar vísbendingar um framvindu prófkjaranna í öðrum ríkjum. Clinton er reyndar með nokkuð öruggt forskot í næstu tveimur ríkjum, Suður Karolínu og Nevada, en framhaldið yrði mun erfiðara ef Sanders sigrar í þeim fyrstu.

New York Times hefur eftir fjölmiðlafulltrúa Clinton að repúblikanaflokkurinn styðji framboð Sanders vegna þess hversu hræddur flokkurinn sé við Clinton. Hún segir bæði Sanders og repúblikana vita að Hillary sé frambjóðandinn sem tryggi að hvorki Donald Trump né Ted Cruz verði íbúar Hvíta hússins næstu fjögur árin.