Sanders efstur í Iowa

epa05116890 United States Senator and Democratic Presidential hopeful Bernie Sanders arrives for a campaign stop in Peterborough, New Hampshire, USA 21 January 2016. Sanders is campaigning in New Hampshire leading up to the New Hampshire primary.  EPA/CJ
 Mynd: EPA
Bernie Sanders hefur tekið framúr Hillary Clinton í nýrri könnun sjónvarpsstöðvarinnar CNN fyrir forkjör demókrataflokksins í Iowa-ríki. Sanders er með forystu í þeim tveimur ríkjum þar sem fyrst verður kosið um forsetaefni flokksins. Donald Trump er með örugga forystu í repúblikanaflokknum.

Könnunin sýnir að fylgi við Sanders er 51 prósent, en 43 prósent við Clinton. Fylgi Sanders eykst um 15 prósent frá könnun CNN fyrir mánuði síðan en á móti fellur Clinton um 11 prósent. Mun fleiri eru búnir að gera upp hug sinn miðað við fyrri kannanir. Í desember voru aðeins 38 prósent aðspurðra ákveðnir en 64 prósent segjast nú búin að ákveða hvern þeir muni kjósa. 20 af hundraði eru enn óákveðnir.

Nýjasta könnun CNN fyrir New Hampshire ríki, sem kynnt var í þessari viku, sýndi öruggt forskot Sanders. Í upphafi kosningabaráttunnar var nánast litið á það sem formsatriði fyrir Clinton að bjóða sig fram en Sanders hefur sýnt að hann er verðugur keppinautur.

Donald Trump leiðir kapphlaupið hjá repúblikanaflokknum en forskot hans á Ted Cruz minnkar lítið eitt frá fyrri könnun. Fylgi Trumps er 37 prósent en 27 prósentum þykir Cruz fýsilegastur. Marco Rubio er í þriðja sæti með 14 prósenta fylgi en aðrir komast ekki nálægt tíu prósentum. Um helmingur kjósenda repúblikanaflokksins hafa ákveðið sig.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV