Sanders býr sig undir ósigur í Suður-Karólínu

27.02.2016 - 13:00
epa05182967 Democratic presidential candidate Senator Bernie Sanders addresses a rally at the historically black Claflin University in Orangeburg, South Carolina, USA, 26 February 2016. The South Carolina Democratic presidential primary is 27 February
 Mynd: EPA
Fyrsta forval Demókrataflokksins í suðurríkjum Bandaríkjanna er hafið í Suður-Karólínu. Samkvæmt könnunum virðist ljóst að Hillary Clinton muni fá fleiri atkvæði en keppinautur hennar Bernie Sanders, sérstaklega munar miklu um fylgi sem hún sækir til þeldökkra í ríkinu.

Sjötíu og eitt prósent aðspurðra blökkumanna sögðust styðja Clinton en aðeins tuttugu og fimm prósent lýstu yfir stuðningi við Sanders. Nú þegar kosningabaráttan er að færast suður á bóginn er Sanders almennt talinn eiga minni möguleika, honum gangi betur í ríkjum þar sem yfirgnæfandi meirihluti kjósenda er hvítur á hörund.

Aðstoðarmenn Sanders hafa nú þegar viðurkennt ósigur í Suður-Karólínu í viðtölum við fjölmiðla og segjast búast við að hann tapi með umtalsverðum mun í ríkinu. Þannig vonast þeir til að draga úr vonbrigðum stuðningsmanna Sanders; tapi hann með undir fimmtán prósentustiga mun geta þeir reynt að túlka það sem vaxandi meðbyr.

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV