Samþykktu stuðning en settu ekki á fjárlög

19.05.2017 - 16:05
Ólétt kona.
 Mynd: birkfoto  -  Freeimages
Ekki er gert ráð fyrir auknum fjármunum til niðurgreiðslu á ófrjósemismeðferðum á fjárlögum þessa árs, þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt þingsályktun þess efnis í september síðastliðnum. Fjárlögin voru afgreidd í desember. Í svari Óttarrs Proppé heilbrigðisráðherra til fréttastofu segir að málið sé til skoðunar.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks í Suðurkjördæmi, var einn flutningsmanna þingsályktunarinnar. Hún segir það vonbrigði að ekki hafi verið gert ráð fyrir fjárveitingu til málefnisins. „Vilji Alþingis er skýr. Stór hópur fólks bíður eftir þessum breytingum og ég hef heyrt af fólki sem hefur beðið með meðferðir því það hefur átt von á breytingum á greiðsluþátttöku ríkisins. Ég vona að heilbrigðisráðherra skoði málið vandlega,“ segir hún. Silja hefur lagt ályktunina fram þrisvar sinnum og kveðst ekki ætla að gera það aftur.

Vonast eftir breytingum á næsta ári

Þegar þingsályktunin var samþykkt síðasta haust var heilbrigðisráðherra falið að endurskoða reglur um greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða fyrir síðustu áramót. Í ályktuninni er kveðið á um að gætt verði að því að greiðsluþátttaka nái til fyrstu glasafrjóvgunarmeðferðar og sé óháð því hvort pör eða einstaklingar eigi barn fyrir. Greiðsluþátttöku ríkisins var breytt árið 2011 þannig að önnur til fjórða meðferð er niðurgreidd í stað fyrstu til fjórðu áður.

Tilvera, samtök um ófrjósemi, stendur nú fyrir átaki sem stefnir að því að vekja athygli á ófrjósemi og hvetur til vitundarvakningar um málefnið. Fulltrúar samtakanna áttu fund með heilbrigðisráðherra í vikunni. Ásta Sól Kristjánsdóttir, varaformaður samtakanna, sagði í samtali við Fréttastofu RÚV að ráðherra hefði gefið þeim von þó að aukinn stuðningur sé ekki á fjárlögum þessa árs. Hún bindur sterkar vonir við að þær náist í gegn á næsta ári. „Við viljum leggja áherslu á að allir hafi jafnan rétt til að stofna fjölskyldu. Til þess að það sé hægt verður að byrja að niðurgreiða þessa fyrstu meðferð,“ sagði hún.

Telja Ísland eftirbát nágrannalanda

Í tillögu til þingsályktunarinnar segir að það sé mat flutningsmanna að Ísland sé nokkur eftirbátur nágrannalanda þegar kemur að stuðningi vegna tæknifrjóvungarmeðferða. Er þar nefnt að greiðsluþátttaka nái ekki til fyrstu glasa- og smásjárfrjóvgunarmeðferðar hér á landi en að í Danmörku og Svíþjóð nái greiðsluþátttaka ríkisins yfirleitt til fyrstu til þriðju meðferðar. „Ljóst má vera að þar sem fyrsta meðferð er ekki niðurgreidd af ríkinu hér á landi getur það verið þungur fjárhagslegur baggi fyrir pör og einstaklinga að leggja í það ferli sem felst í glasafrjóvgunarmeðferð og má því ætla að færri leiti eftir slíkri meðferð en ef greiðsluþátttaka sjúkratrygginga næði einnig til fyrstu meðferðar. Fólk þarf að leggja út talsverða fjármuni til að hefja meðferðina og má í raun segja að þarna sé aðgangshindrun á grundvelli fjárhagsstöðu þar sem þeir sem hafa minna milli handanna eru síður líklegir til að fara í glasa- eða smásjárfrjóvgunarmeðferð þrátt fyrir vilja til að eignast barn og getu til að gefa því gott heimili og uppeldi,“ segir í tillögu þingsályktunarinnar.