Samstarfið breyti ekki skipulagi á Hafnartorgi

23.01.2016 - 09:54
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Formaður borgarráðs segir að samkomulag stjórnarráðsins og Landstólpa þróunarfélags um uppbyggingu á svokölluðu Hafnartorgi breyti ekki skipulagi borgarinnar. Í því sé gert ráð fyrir að á neðstu hæð hússins verði verslun og þjónusta. Forsætisráðherra hefur sagt að núverandi byggingarmagn á reitnum sé of mikið.

„Þessir samningar munu ekki breyta aðalskipulagi hvað það varðar,“ segir Sigurður Björn Blöndal í samtali við Vísi. Hann segir aðilum frjálst að gera samninga sín á milli en borgaryfirvöld vilji sjá mannlíf í miðbænum.

„Ég gæti svo sem alveg séð fyrir mér líflegri starfsemi í húsunum en stjórnarráðið,“ segir Sigurður við Vísi. „Einnig er skipulagið þannig að það er ekki hægt að byggja bara eitt hús með burstum á lóðinni.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í fréttum RÚV á fimmtudag að niðurstaðan gæti verið sú besta fyrir alla sem eiga aðild að málinu. Fengnir verða arkitektar á vegum stjórnarráðsins til að fara yfir hönnun byggingarinnar og skila tillögum fyrir 12. febrúar. Sigmundur sagði mikilvægt að byggingin styrkti sérkenni og heildarsvip miðbæjarins.  

Í fréttum Stöðvar 2 sagði Sigmundur að í einföldu máli ætti húsið að líta út eins og arkitektúr sem gæti átt heima á póstkorti frá Reykjavík