Samstarf sveitarfélaga - ekki sameining

20.01.2016 - 15:48
Hólmavík Strandir Vestfirðir
Hólmavík  Mynd: Jóhannes Jónsson  -  ruv.is
Sveitarstjórn Dalabyggðar, Reykhólahrepps og Strandabyggðar hafa ákveðið að ráðast í samstarf til að efla atvinnulíf og byggð í sveitarfélögunum. Samgöngubótin sem varð með veginum um Þröskulda hefur stytt vegalengd á milli sveitarfélaganna þriggja og bætt aðstöðu til samvinnu. Andrea Kristín Jónsdóttir sveitarstjóri Strandabyggðar segir misskilnings hafa gætt um að til stæði að sameina sveitarfélögin en svo sé ekki.

Um sé að ræða samkomulag um samstarf sveitarfélaganna sem einnar heildar og í því geti falist fjölmörg tækifæri. Í frétt sveitastjórnar Strandabyggðar segir að: „Sveitarfélögin standa jafnframt frammi fyrir þeim sameiginlegu áskorunum að bæta þjónustu, samgöngur, fjarskipti og aðra grunngerð til að búa sem best í haginn fyrir fyrirtæki og íbúa." Til að efla stöðuna á svæðinni þar styrk atvinnulíf og samfélags og því vilja sveitarstjórnirnar taka höndum saman.

Sameiginleg svæðisskipulagsáætlun

Í samstarfinu felst að unnið verður að sameiginlegri svæðisskipulagsáætlun til að ná fram markmiðunum, í henni felist sýn sveitarfélaganna á framtíðarþróun: „að allir sigli í sömu átt." Dregin verður upp mynd af hverjar séu þær auplindir sjávar og sveita sem nýtast íbúum svæðisins sem og landslagi, sögu og menningu. Áætlunin verður unnin í samvinnu sveitarfélaganna og íbúa þeirra og er von forsvarsmanna hennar að þannig megi: „Styrkja ímynd svæðisins og auka aðdráttarafl þess gagnavart ferðamönnum, nýjum íbúum fyrirtækjum og fjárfestum." Vonast er til að svæðisskipulagsáætlun greiði leið sveitarfélaganna að fjármagni til svæðisbundinna verkefna sem fellur að sameiginlegri framtíðarsýn svæðisins. Unnið verður að áætluninni næstu tvö ár og munu íbúar sveitarfélaganna getað fylgst með og kynnt sér framgang mála á þar til gerðri vefsíðu.

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV