Samskipti í skólum, vinnuþrælkun og Óskar J.

19.02.2016 - 18:04
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eru samskipti kennara og nemenda að breytast? Eru nemendur ósáttir við að kennarar leggi mat á námið og geri kröfur til þeirra? Og er það sem gerist í kennslustofunni kannski farið að færast yfir á samskiptamiðlana - án samþykkis kennaranna?

Reyndur íslenskukennari í MH spyr á Facebook síðu sinni hvort það geti verið að kennarar leggi varla lengur í að byggja upp með því að hamra á öguðum vinnubrögðum, sjálfsaga, að nám sé vinna og nauðsyn þess að nemendur vandi sig.  Hvort þeir leggi ekki í heiðarlegt námsmat af ótta við lögsóknir, facebook aðdróttanir, endurminningar þar sem þeir eru nafngreindir og rakkaðir niður? Síðdegisútvarpið ræddi þessi mál við Guðríði Arnardóttur, formann félags framhaldsskólakennara.

Karlmaður er í haldi lögreglunnar á Suðurlandi grunaður um vinnuþrælkun eða mansal. Hann var handtekinn í Vík eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglunnar, sérsveit ríkislögreglustjóra og ríkisskattstjóra en maðurinn. sem er frá Sri Lanka hafði tvær konur, sem eru líka frá Sri Lanka - í haldi á jarðhæð í vinnuþrælkun.  Halldór Grönvold aðstoðarframkvæmdastjóri og deildarstjóri ASÍ rædd þessi mál í Síðdegisútvarpinu.

Föstudagsgesturinn okkar er kvikmyndagerðarmaður, handritshöfundur, töframaður og gott ef ekki tónlistarmaður líka. Hann ber líka ábyrgða á alls konar skemmtilegu efni sem Íslendingar hafa notið í gegnum tíðina. Hann heitir Óskar Jónasson og frumsýnir sína nýjustu mynd eftir helgina, Fyrir framan annað fólk. 

Íslenska framlagið í Söngvakeppnina verður valið annað kvöld á mikilli hátíð í Laugardalshöll. Keppnin í ár er sérlega vegleg - enda ekki þrítug nema einu sinni. Hvað stendur upp úr? Eigum við einhverja möguleika? Við rifjuðum upp gullmola úr sögunni með tveimur Eurovision-kynnum, Gísla Marteini Baldurssyni og Hrafnhildi Halldórsdóttir. 

Kvikmyndahátíðin Stockfish hófst í gær og stendur framyfir þarnæstu helgi. Sara Gunnarsdóttir, íslenskur teiknari búsettur í New York, teiknar hluta af opnunarmynd hátíðarinnar, The Diary of a Teenage Girl.

Við heyrðum líka af Friðarhátíðinni í Reykjavík, sem Ýmir Björgvin Arthúrsson skipuleggur.

Mynd með færslu
Guðmundur Pálsson
dagskrárgerðarmaður
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi