Samskiptaleysi orsök gjaldþrots

13.01.2016 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Félagið Procura ráðgjöf ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta vegna samskiptaleysis og mistaka að sögn Guðmundar Andra Skúlasonar framkvæmdarstjóra. Hann segir nægar eignir í þrotabúinu til að mæta öllum kröfum. Hann segir rekstur Procuru halda áfram en félagið sem fór í þrot er eitt þriggja sem Procura rekur.

Procura hefur meðal annars sérhæft sig í endurútreikningi gengistryggðra bílalána og rekið fjölmörg mál gegn Lýsingu. „Það er búið að klára öll mál. Þeim er öllum lokið með sátt og Procura mun starfa áfram eins og það hefur alltaf gert,“ segir Guðmundur Andri, sem er stofnandi Samtaka lánþega.

Hann segir reksturinn halda áfram án þess að skipta um kennitölu. „Þarna er lítill hluti af rekstrinum sem fór í þrot. Eitt þriggja félaga og út af atriði sem aldrei þurftu að koma til," segir Guðmundur en félagið var úrskurðað gjaldþrota 10.desember hjá Ríkisskattstjóra. „Vegna misskilnings tveggja lögmanna, gjaldþrotaúrskurðurinn fór fram án þess að nokkur mætti.“ Aðspurður um hvað hafi farið úrskeiðis segir Guðmundur Andri að málið hafi farið eftir ákveðnum boðleiðum og hann hafi ekki verið látinn vita af því.

„Það er fullt af eignum í búinu og ég er að vinna í þessu í góðu samstarfi við skiptastjóra,“ en Arnar Þór Stefánsson hjá Lex lögmannsstofu var skipaður skiptastjóri. „Það er enginn sem mun tapa á þessu.“

Guðmundur Andri segir enga fjármuni á vörslureikningum hjá Procuru og allir hafi fengið sínar leiðréttingar sem hafi verið í viðskiptum við stofuna. „Procura heldur áfram í sínum rekstri og heldur áfram að vinna í öllum sínum málum.“

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV