Samningar vegna deilistofna enn lausir

18.02.2016 - 17:21
Mynd með færslu
Fiski af makrílætt hefur fækkað um 74% í heimshöfunum undanfarna áratugi, en til hennar teljast meðal annars makríll og túnfiskur.  Mynd: RÚV
Enn eru flestir samningar Íslands lausir vegna veiða úr sameiginlegum fiskstofnum, svokölluðum deilistofnum. Ísland er með gildan samning við Noreg og Grænland vegna veiða á loðnu en engir samningar eru í gildi vegna veiða á makríl, síld né kolmunna.

Þetta kemur fram í svari atvinnuvegaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Henni svarar Jóhann Guðmundsson, skrifstofustjóri sjávarútvegs- og fiskeldis.

„Engir samningar eru í gildi um makríl, síld né kolmunna milli okkar og annarra. Norðmenn, ESB og Færeyjar hafa þó samið sín á milli um makríl, ESB og Norðmenn um kolmunna og segja má að síldarsamningurinn gamli frá 2007 sé í reynd virtur af öllum nema Færeyingum fram að þessu. Það er væntanlega vegna slæmrar stöðu stofnsins.“

Jóhann segir hefðbundnar strandríkjaviðræður hefjast á haustin þegar ráðgjöf alþjóða Hafrannsóknaráðsins, ICES, liggur fyrir. Þær viðræður skiluðu ekki árangri í haust en forsætisráðherra sagði í samtali við fréttastofu í nóvember að allir aðrir en Íslendingar færu fram á óeðlilega stóran hlut.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum um á hverju samningarnir strandi. „Það hefur ekki tíðkast að gefa út hvað veldur nákvæmlega samningsleysi vegna trúnaðar í þessum viðræðum en í öllum tilvikum er um að kenna að eitt eða fleiri ríki draga sig út úr og vilja hærri hlut,“ segir Jóhann. 

„Það er þó þekkt að Noregur sættir sig ekki við makrílkröfu Íslands, Noregur og Færeyjar vilja meiri síld og Færeyjar og ESB vilja meiri kolmunna. Tekið skal fram að Ísland hefur ekki krafist hærri hlutar í neinum þessara stofna. Nema auðvitað makríl þar sem við höfum aldrei verið með í neinum samningi en krefjumst „réttlátrar“ hlutdeildar.“

Þá er ótaldar veiðar á úthafskarfa en enginn formlegur samningur hefur verið þar í gildi. Þó liggi fyrir samþykkt um að fylgja ráðgjöf Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC). Það hafi þó lítið að segja þar sem Rússar virði ráðgjöfina að vettugi og veiði mun meira.

Þau ríki sem Ísland þarf að semja við í hverju tilfelli fyrir sig má sjá hér að neðan:

Loðna: Ísland, Grænland og Noregur.

Síld: Ísland, Evrópusambandið, Noregur, Færeyjar og Rússland.

Makríll: Ísland, Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar.

Kolmunni: Ísland, Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar.

Úthafskarfi:  Ísland, Evrópusambandið, Noregur, Færeyjar, Grænland og Rússland.
*Grænland og Rússland eru ekki með stöðu strandríkja og sitja ekki alla fundi.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV