Samningar í höfn, verkfalli frestað

02.02.2016 - 03:45
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Skrifað var undir launalið samnings milli Félags vélstjóra og málmtæknimanna og Félags skipstjórnarmanna við Eimskip og Samskip seint á þriðja tímanum í nótt, eftir stíf fundarhöld á skrifstofum ríkissáttasemjara. Verkfalli vélstjóra og skipstjórnarmanna á kaupskipaflota skipafélaganna tveggja, sem hófst á miðnætti, hefur því verið frestað til 12. febrúar.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, sagði í samtali við fréttastofu að enn ætti eftir að ganga frá endanlegum samningstexta, en það væri einungis formsatriði. Aðspurður um helstu efnisatriði sagðist Guðmundur vilja kynna sínu fólki samninginn áður en hann tjáði sig frekar um hann í fjölmiðlum. Hann sagði launaliðinn helst hafa staðið í mönnum, eins og gjarnan sé raunin, en að lokum hefðu samningsaðilar einfaldlega náð sameiginlegri lendingu, og hún yrði nú yrði borin undir félagsmenn. Tilbúinn samningur yrði vonandi lagður fyrir þá til skoðunar áður en vikan er úti. 

Unnið á grunni SALEK-samkomulagsins

Ragnar Árnason, sem fór fyrir samninganefnd SA fyrir hönd Eimskipa og Samskipa, sagðist telja niðurstöðuna viðunandi fyrir báða samningsaðila. Mesta vinnan hafi farið í endurskoðun á launakerfi og uppbyggingu fastlaunasamninga farmanna. Það hafi verið í skoðun um nokkra hríð og tekið töluverðan tíma að fara yfir það. Hann sagði samninginn unninn á grunni SALEK-samkomulagsins; rammasamkomulags flestra af helstu aðilum vinnumarkaðarins um vinnubrögð við kjarasamningagerð.

Eins og Guðmundur, þá vildi Ragnar ekki tjá sig um einstök efnisatriði samningsins að svo stöddu. Hann sagði þetta í raun ekki stóran samning, að því leyti að hann nær aðeins til tiltölulega lítils hóps launamanna, en mikilvægan engu að síður, í ljósi afleiðinganna sem verkfall hefði í för með sér.

Ekki náðist í fulltrúa skipstjórnarmanna við vinnslu þessarar fréttar.