Sammála um mikilvægi loftslagsmála

03.06.2017 - 15:05
epa06008027 French President Emmanuel Macron (R) and Indian Prime Minister Narendra Modi (L) deliver a joint statement after meeting at  the Elysee Palace in Paris, France, 03 June 2017. Modi is in Paris for a one-day visit as the last leg of a four
 Mynd: EPA  -  AP POOL
Forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, stefnir að því að Indland nái enn betri árangri í baráttunni gegn afleiðingum loftslagsbreytinga en ákvæði Parísarsamkomulagsins kveða á um. Þetta kom fram í máli hans að loknum fundi með Emmanuel Macron, forseta Frakklands, í forsetahöllinni í Frakklandi í dag. Indland er í þriðja sæti yfir þau ríki sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum.

Modi sagði að Parísarsamkomulagið gæti orðið til þess að hægt verði að vernda kynslóðir framtíðar. Donald Trump tilkynnti fyrir tveimur dögum að draga Bandaríkin úr hópi þeirra ríkja sem eiga aðild að samkomulaginu og var ákvörðunin víða gagnrýnd. AFP fréttaveitan greinir frá því að Modi hafi ekki gagnrýnt Trump með beinum hætti, heldur rætt almennt um mikilvægi þess að ríki uppfylli ákvæði samkomulagsins.

Macron og Modi ræddu einnig viðskipti, varnarmál og aðgerðir gegn hryðjuverkum. Að loknum fundinum sagði Macron að þeir hefðu varið mestum tíma fundarins í að ræða um loftslagsmál. „Ég lýsi yfir fullum vilja Frakklands til að berjast gegn loftslagsbreytingum." Frakklandsforseti vakti mikla athygli í vikunni þegar hann breytti slagorði Trump um að gera Bandaríkin stórkostleg á ný og hvatti til þess að jörðin yrði gerð stórkostleg á ný. Það gerði hann í mótmælaskyni við ákvörðun Trump um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu.

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir