Samkeppniseftirlitið rannsakar Já aftur

04.01.2016 - 15:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur vísað frá kæru Já ehf, sem á og rekur meðal annars vefsíðuna ja.is. Fyrirtækið krafðist þess að Samkeppniseftirlitið léti af rannsókn á meintum samkeppnisbrotum þess. Samkeppniseftirlitið lagði 50 milljóna króna stjórnvaldssekt á Já ehf í nóvember 2014 en áfrýjunarnefndin felldi hana úr gildi þar sem hún taldi ósannað að Já hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína.

Forsvarsmenn Já ehf segja í greinargerð sinni til áfrýjunarnefndarinnar að hún yrði að taka afstöðu til þess hvort Samkeppniseftirlitið mætti taka mál fyrirtækisins aftur til rannsóknar.  Hún væri mjög íþyngjandi fyrir fyrirtækið og úrskurður áfrýjunarnefndar frá því í mars á síðasta ári - þar sem stjórnvaldssekt Samkeppniseftirlitsins var felld niður - hafi verið endanlegur. 

Samkeppniseftirlitið segir aðdraganda að nýju rannsóknarinnar hafi verið vandaður í greinargerð sinni  - engu breyti þó rannsókn geti verið íþyngjandi fyrir Já ehf. Einungis sé verið að hefja rannsókn á ný til að bæta úr þeim annmörkum sem voru á hinni upphaflegu rannsókn.

Forsvarsmenn Já ehf mótmæltu þessum ummælum í sinni greinargerð - fyrra málið hefði einfaldlega verið fellt niður en ekki vísað til nýrrar meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Áfrýjunarnefndin segir í úrskurði sínum að einungis sé hægt að kæra til hennar ákvarðanir sem binda enda á mál. Ekki séu sérstök rök til að víkja frá þeirri almennu reglu og var kæru Já ehf því vísað frá.

Samkeppniseftirlitið sektaði Já ehf um 50 milljónir í nóvember fyrir tveimur árum. Eftirlitið komst að Já ehf ætti að veita keppinautum sínum aðgang að gagnagrunni sínum yfir símanúmer á málefnalegum kjörum. 

Gagnagrunnur Já á rætur sínar að rekja til þess tíma sem einkaréttur ríkti í fjarskiptum hér á landi. Var hann áður undir yfirráðum Símans og forvera hans. 

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Já, sagði aftur á móti að þessi ákvörðun væri einsdæmi í Evrópu. Henni var áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem felldi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins og stjórnvaldssektina úr gildi.  Sigríður sagði í viðtali við Viðskiptablaðið skömmu seinna að hún væri mjög hugsi yfir vinnubrögðum eftirlitsstofnana í tengslum við þetta mál.