Samið um „hlé á átökum“ í Sýrlandi

12.02.2016 - 00:35
epa05154988 US Secretary of State John Kerry (R) and Russian Foreign Minister Sergei Lavrov (L) attend the International Syria Support Group (ISSG) meeting in Munich, Germany, 11 February 2016, together with members of the Syrian opposition and other
Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands (v) og Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna á fundinum í München.  Mynd: EPA  -  REUTERS POOL
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að samningar hafi tekist um gera hlé á átökum stríðandi fylkinga í Sýrlandi eftir viku, á fundi nokkurra þátttakenda í stríðsrekstrinum. Það nær þó ekki til baráttunnar gegn Íslamska ríkinu og al-Nusra, sem er angi af Al Kaída-hryðjuverkanetinu, og Rússar hafa ekki gefið afdráttarlaus svör um framhald loftárása á Aleppo. Kerry sagði jafnframt að deiluaðilar hefðu komið sér saman um að flýta og auka dreifingu neyðaraðstoðar til almennings.

Fulltrúar 17 ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna, Rússlands og Sýrlands, auk fulltrúa sumra uppreisnarhópanna úr röðum sýrlensku stjórnarandstöðunnar, funduðu um málefni Sýrlands í München á fimmtudag. Staffan de Mistura, sérlegur erindreki Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands, var einnig á fundinum, sem og fulltrúar Evrópusambandsins og Arababandalagsins. Kerry tilkynnti niðurstöðuna á fréttamannafundi að loknum fundarhöldum kvöldsins, laust eftir miðnætti. 

Ekki er þó um eiginlegt eða bindandi vopnahlé að ræða (ceasefire), það er sérstaklega tekið fram. Hins vegar vonast Kerry til að þetta samkomulag leiði á endanum til raunverulegs vopnahlés.

Sýrlenski stjórnarherinn hefur sótt hart að borginni Aleppo og aðliggjandi héraði að undanförnu, og notið til þess stuðnings úr lofti frá Rússum, sem hafa gert fjölmargar loftárásir á svæðinu á degi hverjum síðustu vikurnar. Gangi þetta eftir geta íbúar Aleppo andað eitthvað léttar. Það er þó allt annað en víst að svo sé, því helstu vonbrigði kvöldsins voru þau, að Rússar gáfu engin skýr svör um það, hvort þeir hygðust láta af loftárásum sínum á Aleppo og nágrenni. 

Kerry segir að hjálparlið á vegum Sameinuðu þjóðanna verði sent til Sýrlands til að tryggja að neyðaraðstoðin nái til allra sem hennar þurfi með. 

Stefnt er að því að friðarviðræður milli stjórnar og stjórnarandstöðu hefjist á ný þann 25. þessa mánaðar, og er samkomulagið um hlé á átökunum mikilvægur þáttur í að greiða fyrir þeim viðræðum.  Ýmis skilyrði og ágreiningsmál eru þó enn óútkljáð, meðal annars hverjir eigi að fá að sitja viðræðurnar og hvaða hópa skuli skilgreina sem hryðjuverkasamtök.