Samfylkingin: Taka þarf tillit til ákallsins

03.02.2016 - 22:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar segir að ákall um að flýta landsfundi og formannskjöri sé orðið svo mikið að taka beri tilliti til þess. Það verði að ákveða sem fyrst hver leiðir flokkinn í næstu kosningum.

Samfylkingin tapaði miklu fylgi í síðustu alþingiskosningum og nýjustu fylgismælingar benda til að innan við tíu prósent kjósenda styðji flokkinn um þessar mundir. Til hefur staðið að halda landsfund Samfylkingarinnar í febrúar eða mars á næsta ári en jafnframt að kjósa formann flokksins í allsherjaratkvæðagreiðslu í haust. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður flokksins, vitnaði í nýjustu könnun Gallup í gær og lagði til að landsfundi og formannskjöri yrði flýtt fram í maí. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru margir flokksmenn á sama máli, þingmenn sem og aðrir. Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, segir að taka verði tillit til þess: „Samfylkingin er auðvitað ekkert án flokksmanna sinna. Þegar ákallið er orðið svona mikið og stórt þá ber auðvitað að taka tillit til þess og við erum bara komin á þann stað að það þarf að fara að ljúka þessu. 
Ákall um hvað? 
Þetta snýst um það að við erum að fara í kosningavetur. Það þarf að vera skýrt hver það verður sem leiðir flokkinn í gegnum þessar kosningar. Hver sem það verður þarf hann að hafa skýrt umboð allra félagsmanna til að fara í þennan leiðangur.“

„Þetta er búið að hanga of lengi yfir flokknum“

Framkvæmdastjórn flokksins ákveður hvenær landsfundur og formannskjör fara fram. Samkvæmt lögum flokksins er hins vegar ekki heimilt að halda landsfund nema annað hvert ár og þar af leiðandi ætti hann næst að fara fram á næsta ári. Sema Erla segir að verið sé að leggja mat á lögin og hvað þau heimila: „Þetta mál hefur auðvitað verið til umræðu innan framkvæmdastjórnarinnar í þó nokkurn tíma án þess að loka ákvörðun hafi verið tekin um dagsetningu landsfundar og allsherjaratkvæðagreiðslu um formannskjör. Núna erum við komin á þann stað að við þurfum að klára þetta mál, þetta er búið að hanga of lengi yfir flokknum. “

 

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV