Samfélagsmiðlar miða umræðunni lítt

12.01.2016 - 12:23
Íslensk þjóðfélagsumræða í netheimum getur oft orðið ansi skrautleg. Stór orð eru látin falla og tilfinningarnar hlaupa gjarnan með fólk í gönur.

Við erum að læra á þessa nýju miðla og þeir sem hér er rætt við eru allir sammála um mikilvægi þeirra og telja þá styrkja lýðræðið í landinu.

Þórunn Elísabet Bogadóttir aðstoðarritstjóri á Kjarnanum segir stóran hluta af umferð um hennar vefmiðil komi í gegnum samfélagsmiðla og þannig hafi það verið frá upphafi. Hún telur vægi þeirra í örum vexti. Fólk finnur fréttirnar í auknum mæli í gegnum samfélagsmiðla.

Hallgrímur Helgason rithöfundur segir þetta vera breyttan veruleika. Við fáum fréttirnar upp á tölvuskjáin en köfum kannski ekki djúpt ofan í málin. Hann segir Facebook á Íslandi vera eins og færiband þar sem tvö hundruð manns sitji og bíði eftir að næsta hneykslismál berist til þeirra. „Svo tekur það syrpu á því hneyksli og næsta og næsta og næsta og okkur miðar ekkert fram, það verður engin umræða...“

Í þessum þætti er rætt við Ingólf Bjarna Sigfússon nýmiðlastjóra á Ríkisútvarpinu, Berglindi Pétursdóttur verkefnastjóra samfélagsmiðla á auglýsingastofunni NM, Hallgrím Helgason rithöfund og Þórunni Elísabetu Bogadóttur aðstoðarritstjóra á Kjarnanum.

 

Mynd með færslu
Dagur Gunnarsson
dagskrárgerðarmaður
Þræðir
Þessi þáttur er í hlaðvarpi