Salan á VISA var meirihluti hagnaðar Borgunar

17.02.2017 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgun hagnaðist um 6,2 milljarða króna vegna sölu VISA EU til VISA Inc. Hagnaðurinn var mikill meirihluti af heildarhagnaði fyrirtækisins á árinu 2016 sem var alls rúmlega 7,8 milljarðar króna. Ákveðið var á aðalfundi félagsins í dag að greiða 4,7 milljarða króna í arð til hluthafa félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Borgun. Þar segir jafnframt að greiðslan fari fram í tveimur hlutum, sú fyrri núna í febrúar og sú síðari innan sex mánaða. 

Í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær var greint frá því að líklega yrðu arðgreiðslur til hluthafa allt að 4,7 milljarðar. 

Íslandsbanki, sem er að mestu leyti í eigu íslenska ríkisins, á rúmlega 63 prósenta hlut í Borgun. Eignarhaldsfélag Borgunar á um 34 prósent og eignarhaldsfélagið BPS á fimm prósent. Íslandsbanki fær því um þrjá milljarða í sinn hlut, Eignarhaldsfélagið Borgun, sem keypti sinn hlut af Landsbankanum í nóvember 2015, fær 1,4 milljarða og BPS, sem tólf stjórnendur Borgunar eiga hlut í, 235 milljónir.