Sala Landsvirkjunar ekki á dagskrá

21.05.2014 - 18:16
Mynd með færslu
Ráðherra ríkisstjórnarflokkanna greinir á um hvort selja eigi hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna. Félagsmálaráðherra segir sölu hvorki stefnu Framsóknarflokksins né ríkisstjórnarinnar.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar í gær að velta mætti því fyrir sér að selja allt að fimmtungs hlut í Landsvirkjun til lífeyrissjóðanna. Mikil eftirspurn væri hjá sjóðunum eftir fjárfestingarkostum og sjóðirnir væru í eigu almennings. Ótímabært sé hins vegar að tala um hvort skref í þessa átt yrðu stigin á kjörtímabilinu.

„Þetta er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum og ég lít svo á að fjármálaráðherrann hafi þarna verið að tjá sínar eigin skoðanir,“ segir Eygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra. „Þetta er ekki heldur samkvæmt stefnuskrá Framsóknarmanna. Við ályktuðum sérstaklega um þetta á flokksþingi 2013 að Landsvirkjun eigi að vera í eigu ríkisins.“

Eygló segir þetta hafa komið skýrt fram. „Forsætisráðherra hefur líka tekið af skarið í þinginu mjög skýrt hvað þetta varðar. Þingmenn okkar hafa líka gert það þannig að það liggur alveg fyrir hver afstaða framsóknarmanna er til þessarra hugmynda.“

Eygló segir markmið lífeyrissjóðanna önnur en ríkisins, sjóðunum beri á ná sem bestri ávöxtun lífeyrisiðgjalda. „Þannig að ég lít ekki svo á að lífeyrissjóðirnir myndu gæta að þeim sömu atriðum og ég tel skipta máli varðandi rekstur Landsvirkjunar eða annarra orkufyrirtækja í eigu ríkisins það er það að tryggja almenningi, heimilunum og fyrirtækjunum góða þjónustu og lágt orkuverð.“