Sakar Írana um „geigvænlegar ögranir“

20.04.2017 - 02:19
Mynd með færslu
Rex Tillerson.  Mynd: EPA
Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakar Írana um „geigvænlegar og viðvarandi ögranir" sem miði að því að grafa undan stöðugleika í Miðausturlöndum og hagsmunum Bandaríkjanna í þessum heimshluta um leið. Fái Íran að fara sínu fram, óhindrað, megi allt eins búast við því að það feti sömu slóð og Norður Kórea „og taki heiminn með sér," segir Tillerson í bréfi til utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings.

Tilefni skrifanna er yfirferð utanríkismálanefndar á framkvæmd og efndum kjarnorkusamningsins við Íran, sem Donald Trump hefur lýst yfir vilja til að rifta. Í bréfi Tillersons kemur fram að Trump hafi gefið Þjóðaröryggisráðinu fyrirmæli um að fara í saumana á samningnum í samvinnu við fleiri stofnanir. Þótt Bandaríkin viðurkenni að Íranar hafi staðið við öll skilyrði samningsins, þyki rétt að skoða málið í víðara samhengi. Íranar séu enn leiðandi stuðningsríki hryðjuverkasamtaka og beiti til þess ýmsum brögðum.

Sakaði Tillerson Írana meðal annars um að vinna gegn bandarískum hagsmunum í Líbanon, Írak, Sýrlandi og Jemen. „Heildarstefna í málefnum Írans krefst þess að við horfum til allra ógna sem af Íran stafa, og þær eru margar,“ segir í bréfi utanríkisráðherrans. Í þessu ljósi sé rétt að endurskoða ákvæði samningsins um afléttingu hafta og refsiaðgerða og taka jafnvel einhverjar þeirra upp á ný.

James Mattis, varnarmálaráðherra, tók í sama streng í gær. Sagði hann sama hvert litið væri í Miðausturlöndum, alstaðar þar sem ófriðarbál logaði mætti finna Írana með fingurna í spilinu.

Láti Trump-stjórnin verða af því að grípa til refsiaðgerða á ný yrði það brot á ákvæðum tímamótasamnings Bandaríkjanna, Rússa, Kínverja og Evrópusambandsins við Írana um tilhögun kjarnorkumála þar eystra, en sá samningur var undirritaður 2015.    

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV