Sakar fræðimenn um föðurlandssvik

14.01.2016 - 18:04
epa05042583 A handout picture provided by Turkish President Press office shows Turkish President Recep Tayyip Erdogan speaking during a meeting with village headmen, known as mukhtars, in Ankara, Turkey, 26 November 2015. Reports state Erdogan said Turkey
 Mynd: EPA  -  TURKISH PRESIDENT PRESS OFFICE
Um 1.200 fræðimenn sem starfa í Tyrklandi gagnrýna framgöngu tyrkneska hersins gegn Kúrdum, í áskorun til tyrkneskra stjórnvalda. Þar er þess krafist að endir verði bundinn á vargöld á svæðum Kúrda. Stjórnvöld eru sökuð um að stefna að fjöldamorði á Kúrdum og reyna að hrekja þá á vergang.

 

Auk tyrkneskra fræðimanna, hafa nokkrir þekktir erlendir fræðimenn skrifað undir skjalið. Þeirra á meðal er málfræðingurinn Noam Chomsky og heimspekingurinn Slavoj Žižek.

Tyrkneskir her- og lögreglumenn hafa mánuðum saman barist við skæruliða PKK - Verkamannaflokks Kúrdistans - í suðausturhluta landsins. Þá hafa sprengjuárásir verið gerðar á bækistöðvar PKK í Írak. Umsátursástand hefur verið undanfarna mánuði í mörgum borgum og bæjum á svæðinu. Mannréttindasamtök segja að yfir eitt hundrað almennir borgarar hafi fallið í aðgerðunum.

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdoğan hefur brugðist reiður við áskorun fræðimannanna. Saksóknari í Tyrklandi hefur nú hafið rannsókn á þeim sem skrifa undir skjalið. Fólkinu er gefið ýmislegt að sök. Meðal annars að dreifa áróðri hryðjuverkamanna; kynda undir hatri; hvetja til lögbrota; og móðga tyrkneska ríkið. Erdoğan hefur sjálfur sakað fræðimennina um föðurlandssvik.