Saka borgarfulltrúa um áhugaleysi

05.03.2016 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarfulltrúar í Reykjavík hafa sýnt lítinn áhuga á áhyggjum af dekkjakurli á völlum borgarinnar, að mati hóps foreldra sem vill dekkjakurlið burt af völlunum. Þeir segja sparnaðinn við að fresta endurnýjun á völlunum vera hverfandi.

Hópurinn hefur sent inn umsögn vegna þingsályktunartillögu um að bann verði sett við notkun gúmmíkurls úr dekkjum á íþróttavöllum. Stuðningi er lýst við bannið auk þess sem kveðið verði skýrt á um að börnin njóti vafans þegar rætt sé um eiturefni í umhverfi þeirra, en í þessu tilviki er átt við efnið PAH sem talið er krabbameinsvaldandi, og var töluvert af í dekkjum sem voru framleidd fyrir árið 2010. 

Reykjavíkurborg á 21 dekkjakurlsvöll - sex stóra velli hjá íþróttafélögunum og 15 sparkvelli sem eru á skólalóðum. Í umsögninni eru borgarfulltrúar í Reykjavík gagnrýndir fyrir að hafa sýnt málinu lítinn áhuga. Málið virðist hafa markvisst verið tafið innan nefnda og ráða Reykjavíkurborgar frá því í haust þegar foreldrar skoruðu fyrst á borgina að skipta út þeim völlum sem væru með kurli úr úrgangsdekkjum. Endurnýja hafi þurft fimm af sex stóru völlunum í fyrra en aðeins einn þeirra sé á endurnýjunaráætlun í ár - völlur Víkings. Síðan er gert ráð fyrir að vellir KR og Fylkis verði endurnýjaðir 2017.

Þá er borginn gagnrýnd fyrir ranga forgangsröðun. Sparnaður við að fresta endurnýjun sé hverfandi - frestun eins stórs vallar spari sjö milljónir. Þá er nefnt sem dæmi að bíða mætti með þrengingar við Grensásveg í eitt ár og í staðinn flýta endurnýjun allra sparkvallanna og tveggja af stóru völlunum.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV