Sagði lögguna eins og byrjendur í húsbílamáli

15.02.2016 - 15:10
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Guðmundur St. Ragnarsson, verjandi hollensku konunnar sem er ákærð í umfangsmiklu fíkniefnamáli, krafðist þess að hún yrði sýknuð - skjólstæðingur hans hefði verið ákærður án allra sönnunargagna. Hann gagnrýndi vinnubrögð lögreglunnar harðlega, sagði að lögreglumenn hefðu hagað sér eins og byrjendur og væri það óviðeigandi í máli af þessari stærðargráðu. „Það dugar ekki að telja að skjólstæðingur minn hafi óhreint mjöl í pokahorninu. Það þurfa að vera til gögn til að styðja það.“

Munnlegur málflutningur fór fram í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Þetta er mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á hér á landi. Fólkinu er gefið að sök að hafa flutt inn 209 þúsund MDMA-töflur.  

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, sagði málið án hliðstæðu, slíkt væri magn fíkniefnanna sem fólkið hefði reynt að koma inn í landið. Gísli Auðbergsson, verjandi mannsins, sagði að konan hefði farið í ferðina þar sem dóttur hennar hefði verið hótað af misyndismönnum.

Guðmundur benti á að játning lægi fyrir og málið hefði eiginlega verið upplýst strax og það kom upp.  Hollenski maðurinn hefur játað að hafa reynt að smygla fíkniefnunum til landsins. Sambýliskona hans neitar sök og segist ekkert hafa vitað. Undir það hefur maðurinn tekið.

Guðmundur sagði að framburður skjólstæðings síns hefði verið stöðugur en saksóknari hefur gert mikið úr því að svo hafi ekki verið. „Ef það eru sönnunargögn sem styðja misræmið þá skiptir slíkt máli en það eru hvorki til sönnunargögn né óbein sönnunargögn,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði að konan hefði ekki vitað af því að sambýlismaður hennar hefði skuldað mönnum umtalsverða fjármuni vegna kannabisræktunar sem fór úrskeiðis fyrir þremur árum. Hún hefði heldur ekki vitað að dóttur hennar yrði gert mein ef skuldin yrði ekki gerð upp með ferðinni örlagaríku til Íslands né að eitt af skilyrðunum væri að hún ætti að fara með.

Guðmundur sagði að skjólstæðingur hans hefði verið algjörlega grunlaus um hvað væri í niðursuðudósunum. Fram hefur komið að fíkniefnin voru falin í 14 niðursuðudósum, tveimur gaskútum og varadekki. „Staðreyndin er sú að það eru engin gögn sem benda til þess að hún hafi vitað af broti sambýlismanns síns.“

Guðmundur gerði alvarlegar athugasemdir við hvernig tekin hefði verið skýrsla af nágrannakonu skjólstæðings hans og hvernig sá vitnisburður hefði verið notaður fyrir dómi. „Hann var ekki undirritaður heldur reyndi hollenskur lögreglumaður að hafa eitthvað eftir þessu vitni,“ sagði Guðmundur sem taldi ekki hægt að leggja þennan vitnisburð fyrir dóm. 

Og Guðmundur gerði alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð lögreglunnar. Hann sagði að lögreglumennirnir hefðu verið eins og algjörir byrjendur. Hann rifjaði upp að parið hefði ekki fengið leyfi hjá Fangelsismálastofnun til að hittast. „En svo kom allt í einu grænt ljós og þá var það til að hlera samtal þeirra,“ sagði verjandinn. Til að bæta gráu ofan á svart hefði verið reynt að halda þessu gagni frá verjendum. „Þetta eru vinnubrögð sem ekki eru sæmandi í máli af þessari stærðargráðu.“

Guðmundur sagði að skjólstæðingur hans hefði hreina sakaskrá í Hollandi, hún væri fjölskyldumanneskja sem ætti dóttur heima fyrir og hefði í farbanninu unnið sem sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum.  Guðmundur sagði að hún hefði verið föst á Íslandi í fimm mánuði vegna brota sem sambýlismaður hennar hefði framið. „Fótunum hefur verið kippt undan tilveru hennar með óljósum sönnunargögnum.“