Saga um móðurhlutverk, bernsku og stéttamun

20.03.2017 - 16:25
Mig langaði til að skrifa um móðurhlutverkið og bernskuna en líka um stéttaskiptingu sem hefst oft strax í barnaskóla og helst svo ævina á enda, segir Gerður Kristný um skáldsögu sína Hestvík sem er Bók vikunnar á rás 1 að þessu sinni.

Titillinn „Hestvík“ vísar til staðarnafns í Grafningum en þangað fer móðir með stálpaðan son sinn til að hann megi upplifa paradís hennar eigin bernsku. Í þessu ferðalag á hennar eigin bernska þó eftir að mæta henni með talsvert öðruvísi hætti en hún ætlaði.

Í þættinum Bók vikunnar, sunnudaginn 26. mars, ræðir Jórunn Sigurðardóttir við bókmenntafræðingana Guðrúnu Baldvinsdóttur og Veru Knútsdóttur um skáldsöguna Hestvík.

Til að stytta biðina má hér hlusta á höfundinn lesa tvö brot úr sögunni. Annars vegar úr upphafi hennar þegar Elín kemur með son sinn Dóra í bernskuparadísina, sumarbústaðinn við Hestvík, þar sem hvorki er rafmagn né heitt vatn. Hitt brotið er tekið úr síðari hluta bókarinnar.  Nauðug viljug hefur Elín brugðið sér í næsta bústað þar sem gamall bekkjarfélagi hennar og hrellir frá því í barnaskóla Haukur að nafni dvelur ásamt eiginkonu sinni og dóttur. Á meðan á partýinu stendur kemur í ljós að bæði börnin eru horfin og er ekki örgrannt á að við það ýfist upp andstæður þessara tveggja sumarbústaðaeigenda frá því þau voru saman í barnaskóla. Á milli lestranna heyrist viðtal við Gerði Kristnýju um umfjöllunarefni bókarinnar og frásagnaraðferð.

Gerður Kristný var tuttugu og fjögurra ára þegar hún sendi frá sér sína fyrstu ljóðabók, Ísfrétt, árið 1994.  Gerður hefur síðan verið atkvæðamikil í íslenskum bókmenntum auk þess sem hún starfaði framan af sem blaðamaður og var m.a. ritstjóri tímaritsins Mannlífs.

Gerður er ekki síst þekkt fyrir ljóðabækur sínar sem hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir og hafa verið þýddar á ótal tungumál. Það sama má segja um barnabækur Gerðar. En Gerður hefur líka skrifað skáldsögur og smásögur fyrir fullorðna.

Á síðustu árum hafa skáldsögur Gerðar, hvort heldur fyrir börn eða fullorðna, einkennst af spennu sem byggir á óhugnaði og nokkuð óræðri frásögn um leið og texti hennar knappur og afar nákvæmur.

Mynd með færslu
Jórunn Sigurðardóttir
dagskrárgerðarmaður
Bók vikunnar
Þessi þáttur er í hlaðvarpi