Saga Akranesbæjar I og II á leið á haugana

16.02.2016 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson  -  RÚV
„Þetta eru einhver 250 til 300 bindi af þessari merku sögu - heilmikill lager - sem bærinn var ekki reiðubúinn til að kaupa. Ég vildi fá milljón en bærinn bauð hálfa og það var einfaldlega of lítið þannig að bækurnar enda sennilega á haugunum,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, skiptastjóri þrotabús Uppheima. Hann bauð Akranesbæ að kaupa þau bindi af Sögu Akranesbæjar I og II sem til eru á lager Uppheima. Ritun þeirra kostaði Akranes rúmar 120 milljónir.

Tilboð Sveins Andra var tekið fyrir á fundi bæjarráðs um miðjan janúar. Þá var Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra, falin frekari úrvinnsla málsins í samræmi við umræður á fundinum.

Bæjarráð samþykkti síðan á fundi sínum í síðustu viku að bjóða skiptastjóranum hálfa milljón. „Menn halda alltaf að þeir geti fengið einhvern afslátt þegar þeir eru að eiga við þrotabú,“ segir Sveinn Andri. Örlög bókanna verða því sennilega þau að enda á haugunum.

Ritin tvö voru umdeild í meira lagi.  Þau voru meira en aldarfjórðung í smíðum og heildarkostnaður bæjarfélagsins nam 120 milljónum, uppreiknað á núvirði.  Til að bæta gráu ofan á svart fékk bókin á baukinn hjá gagnrýnendum. Páll Baldvin Baldvinsson skrifaði harðorðan bókadóm í Fréttatímann.

Viðbrögðin við dóminum urðu meðal annars þau að Páli var hótað málsókn og þess krafist að hann bæði höfunda bókarinnar afsökunar á ærumeiðingum og rangfærslum. Akranesbær hætti síðar við málsóknina vegna bókadómsins.

Ólafur Adolfsson, formaður bæjarráðs Akranesbæjar, segir bæjarfélagið ætli ekki  að bjóða betur. Hann telur undarlegt ef skiptastjóri ætli að setja þessi bindi á haugana - honum standi til boða að fá hálfa milljón fyrir þau. „Akraneskaupstaður hefur engin sérstök not fyrir þetta - þetta er veglegt ritverk og sómi á hverju heimili en Akraneskaupstaður er ekki í ábyrgð.“

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV