Sækist eftir lögmannsréttindum á ný

18.01.2016 - 21:36
Allir geta fengið uppreist æru hérlendis að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, óháð eðli brotsins. Innanríkisráðuneytið hefur veitt manni sem sat inni fyrir manndráp í tíu og hálft ár, uppreist æru og hefur hann nú sótt um það fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að fá málflutningsréttindi að nýju.

Atli Helgason fékk sextán ára fangelsisdóm í maí árið 2001 fyrir manndráp. Samtímis var hann sviptur lögmannsréttindum. Atli sat inni í 10 og hálft ár og lauk afplánun árið 2010. Frá þeim tíma hefur hann starfað sem lögfræðingur á lögmannsstofu.      

Hulda María Stefánsdóttir sérfræðingur í refsirétti segir alla geta fengið uppreist æru að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. 

 „Ef viðkomandi hefur hlotið árs fangelsisdóm og það eru fimm ár liðin frá afplánun refsingar þá fær hann sjálfkrafa uppreist æru og það er ráðuneytið sem sér um að veita uppreist æru. Síðan er hægt að fá uppreist æru þótt þú hafir framið alvarlegra brot og þótt það sé minni tími en fimm ár liðin frá afplánun refsingar. Þetta getur líka verið frá því að þú fékkst reynslulausn, það er ekki bara þegar þú klárar afplánun í fangelsi. Það skiptir ekki máli hvaða brot þú fremur eða hvaða fangelsisdóm þú færð, það geta allir sótt um uppreist æru. Það skiptir verulegu máli að fá uppreist æru fyrir fólk vegna þess að þá telst það með óflekkað mannorð og til þess að sækja um hin ýmsu störf eins og að vera saksóknari, dómari, endurskoðandi eða lögmaður svo dæmi sé tekið þá þarftu að hafa óflekkað mannorð,“ segir Hulda. 

Ekki er þó sjálfgefið að allir fái uppreist æru sem það vilja. Fimmtíu og sjö sóttu um að fá uppreist æru á árunum 1995-2012. Þrjátíu og einni umsókn var hafnað en tuttugu voru samþykktar. Ein var dregin til baka og fimm felldar niður. Til að fá uppreist æru þarf að hafa tekið út refsingu, ef um alvarlegt brot er að ræða þurfa fimm ár að líða frá afplánun og brotið verður að hafa verið fyrsta brot.“  

Atli Helgason hefur nú lagt inn beiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur um að réttindasviptingin verði felld niður svo hann geti fengið málflutningsréttindi sín aftur og starfað sem lögmaður. Mál hans verður tekið fyrir í héraðsdómi í vikunni. Atli baðst undan viðtali þegar Kastljós leitaði eftir því og sagðist vilja bíða þar til úrskurður kæmi í máli hans sem nú er til meðferðar. Í lögum segir að hafi lögmenn verið sviptir málflutningsréttindum þurfi þeir meðmæli Lögmannafélagsins til að fá þau aftur.

Við lítum svo á að menn sem hafa verið sviptir málflutningsréttindum, hvort heldur sem það er með dómi eða úrskurði úrskurðarnefndar lögmanna áður en þeir geta fengið lögmannsréttindin á nýjan leik, þá þurfa þeir að fá meðmæli frá Lögmannafélagi Íslands og standast prófraun sem lögmenn þurfa alla jafna að standast eins og lögum er háttað í dag,“ segir Reimar Pétursson formaður Lögmannafélagsins. 

Þarna greinir Lögmannafélagið og Atla á. Atli telur að ágreiningurinn sé um hvort lög um lögmenn eigi við í þessu tilviki þar sem lögmannalögin fjalli eingöngu um brot sem lögmenn fremji í störfum sínum. Á þetta mun reyna fyrir dómi.  

Mynd með færslu
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós