Sádar slíta stjórnmálasambandi við Íran

04.01.2016 - 00:14
epa05087135 (FILE) A file picture dated 25 October 2015 of Saudi Foreign Minister Adel al-Jubair speaking during a press conference in Cairo, Egypt. Saudi Arabia is cutting diplomatic ties with Iran, the Saudi foreign ministry says on 03 January 2016, and
Adel al-Djúbeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Sádi-Arabar hafa slitið stjórnmálasambandi við Íran í kjölfar þess að mótmælendur réðust inn í sendiráð þeirra í Teheran og ræðismannsskrifstofuna í Mashhad, næststærstu borg Írans, á laugardag. Adel al-Djúbeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu tilkynnti þetta í kvöld. Allir starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sem staðsettir eru í Íran,voru kallaðir heim og hafa þegar yfirgefið Íran. Allir fulltrúar Írans í Sádi-Arabíu eiga að vera farnir úr landi innan tveggja sólarhringa.

Utanríkisráðherrann lýsti því yfir, um leið og hann tilkynnti þetta, að Íranir komist ekki upp með að grafa undan öryggi Sádi-Arabíu. Fjöldi fólks kom saman til að mótmæla aftöku Sádi-Arabískra yfirvalda á sítaklerknum Nimr al-Nimr og á endanum réðust mótmælendur inn í sendiráðið og ræðismannsskrifstofuna og kveiktu í þeim. Írönsk yfirvöld hafa fordæmt árásirnar og handtekið á fimmta tug mótmælenda vegna þeirra, en það hefur ekki dugað til að sefa reiði Sádi-Araba.

Al-Djúbeir segir árásirnar á sendiráðið og ræðismannsskrifstofuna alvarleg brot á alþjóðalögum og sakaði stjórnvöld í Teheran um að halda hlífiskildi yfir leiðtogum al Kaída-hryðjuverkanetsins og sjá þeim fyrir vopnum. Sagði hann Sádi-Araba ætla sér að halda sínu striki í viðleitni sinni til að binda endi á hryðjuverkastarfsemi. Með þessu vísar hann í þá harkalegu gagnrýni, sem aftökur klerksins og 46 annarra manna á nýársdag hafa vakið víða um heim. Hinir líflátnu voru allir dæmdir fyrir hryðjuverk eða, eins og í tilfelli al-Nimrs, fyrir að hafa hvatt til hryðjuverka.

Rouhani Íransforseti hefur slegið sáttatón í sínum viðbrögðum við aftöku al-Nimrs, en Ali Khamenei, æðstiklerkur í Íran, dregur hvergi af sér við yfirlýsingarnar og segir guðlega hefnd vofa yfir stjórnvöldum í Ryad, sem séu bófar og illmenni og engu skárri en hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við ríki Íslams.

Íranir og Sádi-Arabar hafa lengi eldað grátt silfur, hinir fyrrnefndu eru forystuþjóð í heimi síta-múslíma, en Sádar eru áhrifaþjóð meðal súnní-múslima.

Ban Ki Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, leiðtogar Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og fjölda annarra ríkja hafa fordæmt aftökurnar og lýst áhyggjum af áhrifunum sem aftaka al-Nimrs gæti haft á samskipti ríkja á þessum slóðum.