SÁÁ á leið í stórframkvæmdir

02.02.2016 - 22:34
Mynd með færslu
Staðarfell í Dölum. SÁÁ hættir meðferð þar á næsta ári ef allt gengur eftir  Mynd: RÚV
Mynd með færslu
Teikning af stækkun Víkur á Kjalarnesi. THG arkitektar  Mynd: RÚV
Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann, SÁÁ, hyggja á stórframkvæmdir á Kjalarnesi og ætla að stækka endurhæfingastöðina Vík um 2700 fermetra og hætta um leið starfsemi á Staðarfelli.

Meðferð á Staðarfelli hætt

SÁÁ hefur rekið eftirmeðferð fyrir sjúklinga á Staðarfelli á Fellsströnd í Dalasýslu síðan 1980 og hefur gefist vel.  Arnþór Jónsson formaður SÁÁ segir að sjálfur hafi hann verið á Staðarfelli. „Það er voða gott að vera þarna. Og þetta er svona langt í burtu frá ys og þys í borginni.“
Ríkið á Staðarfell. SÁÁ hefur ekki greitt leigu en greitt viðhald sem orðið er mjög dýrt. 

Vík stækkuð úr 800 í 3500 fermetra

Í dag var skrifað undir samninga við THG arkitekta og Hnit verkfræðistofu um hönnun á Vík. Útboð er á næsta leiti og framkvæmdir gætu hafist í maí og byggingin hugsanlega verið tilbúin vorið 2017. „Við erum að stækka um 2700 fermetra.“ segir Theódór Skúli Halldórsson formaður bygginganefndar SÁÁ. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á 800 milljónir króna. Búið er að tryggja lánsfjármögnun og Arnþór er bjartsýnn: „Við sjáum fram úr þessu næstu árin alla vega og sjáum örugglega fram úr þessu ef við höldum þessum stuðningi hjá almenningi og fyrirtækjum.“

Á Staðarfelli er nú pláss fyrir 40 karla og í Vík pláss fyrir 20 konur. Theódór segir að plássum verði ekki fjölgað í eftir stækkun. „Við erum að skapa þarna miklu betri aðstæður fyrir okkar sjúklinga og miklu betri aðstöðu fyrir starfsfólkið og bara nútímavæða meðferðina enn á ný.“

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV