Rýma flóttamannabúðirnar í Calais

29.02.2016 - 22:23
epaselect epa05187694 A refugee watches a shelter burn during the start of the expulsion of a part of the Jungle migrant camp in Calais, France, 29 February 2016.  A court in Lille, northern France, upheld an expulsion order issued by local authorities to
 Mynd: EPA
Frönsk yfirvöld hófu í dag að rýma óskipulagðar flóttamannabúðir í Calais í Frakklandi. Til átaka kom milli lögreglu og flóttamanna í búðunum sem neituðu að fara.

Franskur dómstóll úrskurðaði í síðustu viku að yfirvöldum væri heimilt að rýma búðirnar og jafna þær við jörðu. Búðirnar í hafnarbænum Calais eru án rennandi vatns eða rafmagns, og ganga undir nafninu „Frumskógurinn“. Talið er að þúsundir flóttamanna hafist þar við, þar af nokkur hundruð börn og mörg þeirra eru ein á ferð. Flestir sem þar dvelja vilja freista þess að smygla sér yfir Ermasundið til Bretlands.

Frönsk yfirvöld segja búðirnar óheilsusamlegar og að takmarkið sé að færa flóttafólkið í skipulagðar búðir. Aðgerðarsinnar segja rýmingu búðanna illa undirbúna og segja hana ekki leysa vandann.

Táragas og brunnin tjöld

Óeirðalögregla beitti táragasi eftir að íbúar köstuðu steinum að vinnumönnum sem rifu niður tjöld í suðurhluta búðanna. Eldur kviknaði í fjölmörgum tjöldum flóttamanna, en óvíst er hvort það var af völdum táragassprenginga eða hvort flóttafólkið kveikti sjálft í.