Ryder-bikarinn í forgangi hjá Spieth

20.01.2016 - 17:01
epa05043823 World number one, Jordan Spieth of the USA plays a shot out of the bunker onto the 9th green during round 2 of the Australian Open Championship at The Australian Golf Club in Sydney, Australia, 27 November 2015. The Emirates Australian Open
Jordan Spieth hefur unnið sjö mót og ekki orðinn 23 ára.  Mynd: EPA  -  AAP
Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth segir það vera forgangsmál hjá sér að bandríska liðinu gangi vel í Ryder-bikarnum sem fram fer næsta haust. Margir spá Spieth mikilli velgengni á árinu sem er framundan en Spieth hóf árið með sigri í móti meistaranna sem fram fór á Hawaii.

Þessi 22 ára kylfingur vann tvö stórmót á síðasta ári (Masters og Opna bandríska) og flestir áttu von á því að Spieth myndi leggja mesta áherslu á að klófesta fleiri stórtitla. Spieth er hins vegar mikill liðsmaður og setur í forgang að bandaríska liðinu takist náði að endurheimta Ryder-bikarinn sem hefur verið í vörslu Evrópumanna frá árinu 2010.

„Við erum orðnir þreyttir á að heyra sögu síðustu móta,“ segir Spieth og leggur áherslu á að liðið verði skipað ungum leikmönnum sem komi inn í mótið með hreint borð. Ungir bandarískir leikmenn líkt og Rickie Fowler, Brooks Koepka, Justin Thomas og Patrick Reed hafa verið nefndir í þessu samhengi sem mynda auk Spieth nýja kynslóð toppkylfinga frá Bandaríkjunum.

Eftir tap Bandaríkjamanna í Ryder-bikarnum haustið 2014 á Gleneagles í Skotlandi var kallaður saman 11-manna aðgerðarhópur til að kryfja til mergjar hvers vegna bandaríska liðinu hefur ekki tekist að vinna keppnina frá árinu 2008 en mótið fer fram annað hvert ár.

Davis Love III var á ný fenginn til að stýra liðinu en hann var við stjórnvölinn hjá Bandaríkjamönnum árið 2012 þegar Evrópumenn áttu ótrúlega endurkomu á Medinah vellinum í Chicago og unnu með einu stigi. Love III hefur fengið stórkylfinganna Tiger Woods, Jim Furyk og Steve Stricker sér til aðstoðar sem aðstoðarfyrirliða - og ekki veitir af. Leikið verður á Hazeltine vellinum í Minnesota og hefst keppnin 30. september næstkomandi.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður