Rústatúristar í Amatrice

Ítalía
 · 
Pistlar
 · 
Pistlar
 · 
Sigurbjörg Þrastar
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Rústatúristar í Amatrice

Ítalía
 · 
Pistlar
 · 
Pistlar
 · 
Sigurbjörg Þrastar
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
21.04.2017 - 15:30.Guðni Tómasson.Víðsjá
Undanfarna mánuði hefur ítalskur smábær á Ítalíu orðið táknmynd jarðskjálftanna miklu sem skóku landið á síðasta ári. Hörmungarnar hafa dregið aukin fjölda ferðamanna á svæðið en bæjarstjórinn tilkynnti þeim fyrir stuttu að þetta væri enginn staður fyrir afþreyingu.

Sigurbjörg Þrastardóttir er að sniglast um Ítalíu þessa dagana. Hún sendi Víðsjá pistil að sunnan.


Sigurbjörg Þrastardóttir skrifar:

Skjálftamiðja

Amatrice er ítalskur smábær, sem hefur á síðustu mánuðum orðið nafntogaður af ástæðum sem enginn þar um slóðir óskaði sér, en komu þó ekki algjörlega á óvart. Bærinn hefur orðið táknmynd, eða eins konar andlit, jarðskjálftanna miklu sem skóku Mið-Ítalíu og hófust aðfararnótt 24. ágúst 2016. Fyrsti skjálftinn var af stærðargráðunni 6,0 á Richter, og af þeim 299 manneskjum sem létu lífið í honum voru 235 íbúar í Amatrice. Í kjölfarið fylgdu harðir skjáftar í október, sem ollu enn frekari skemmdum, og síðasta hrinan varð nú um miðjan janúar 2017.

Bærinn Amatrice er sem fyrr segir ekki stór, þar hafa síðustu ár búið um 2600 manns, hann er eins og rétt rúmlega Hveragerði, en hann á sér mun lengri sögu. Raunar herma heimildir að sú saga nái vel aftur fyrir tíma Rómverja, þannig að á slóðum Amatrice hefur verið búið í nokkur þúsund ár. Það er talsvert. Og þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem svæðið verður fyrir barðinu á jarðskjálftum, staðsetningin er þannig – til dæmis fórust hundruðir, og ef allt er talið raunar þúsundir, á svæðinu í miklum skjálftum árið 1639. Íbúarnir hafa einnig komist í hann krappan í margvíslegu öðru tilliti, þar hafa verið mannskæð flóð og þeir hafa tekið þátt í óvenju mörgum byltingum, orrustum og uppreisnum undir og gegn ýmsum herrum. Eignarhald á bænum verið breytilegt, nýjustu sviptingar á síðustu öld voru þær að bærinn færðist frá Abruzzo og tilheyrir nú héraðinu Lazio.

Klukkum hringt á ný

Nú, Amatrice hefur stundum verið nefnt hundrað-kirkna-þorpið, en í skjálftunum að undanförnu þögnuðu allar klukkur vegna skemmda. Sú þögn er orðin sjö og hálfs mánaða löng og þess vegna þótti Ríkissjónvarpinu Rai tilefni til þess að senda beint frá Amatrice, strax í kjölfar messu páfans í Róm á páskasunnudag, því þá var kirkjuklukkum í Amatrice hringt í fyrsta sinn frá því í ágúst. Að vísu ekki öllum gömlu klukkunum, heldur var fimm ólíkum klukkum bjargað úr rústunum og þær hengdar á heimatilbúna stillansa, svo hægt væri að leika stutta og gleðilega melódíu. Þetta var táknrænt skref fyrir eftirlifandi íbúa í bænum, eins konar endurfæðing, eða innhringing nýrra tíma, eftir því sem ríkissjónvarpið hermdi. Aðrir voru þó fljótir að muldra að táknrænir gjörningar á borð við þennan gagnist lítið ef ríkið setur ekki almennilegan pening í uppbygginguna sjálfa.

Það er hér, eins og alltaf, alls staðar, álitamál – en hitt má til sanns vegar færa að almenningur hefur ekki legið á liði sínu eftir hremmingarnar. Almannavarnir opnuðu söfnunarsíma samdægurs þann 24. ágúst og söfnuðust 15 milljónir evra fyrstu vikurnar. Númerið var enduropnað tvisvar vegna áframhaldandi skjálfta og nefnd skipuð til að stýra úthlutunum úr uppbyggingarsjóðnum – alls safnaði sjóðurinn á hálfu ári því sem nemur um tveimur og hálfum milljarði íslenskra króna. Nokkrir frjálsir fjölmiðlar og símafyrirtæki opnuðu einnig söfnunarlínu, og sama gerðu umhverfissamtökin Legambiente sem notuðu bitcoins sem gjaldmiðil sinnar söfnunar.

En verkið sem blasir við er stórkostlega umfangsmikið, til viðbótar við allar byggingarnar sem hrundu, sprungu, skekktust eða rifnuðu, má bæta við skemmdum á brúm og vegum, sem hindruðu framan af bæði umferð og aðföng.

Á ferð og flugi

Og talandi um umferð – annar dagur páska er á Ítalíu mikill ferðadagur. Þá taka fjölskyldur sig til og keyra út úr bæjum og borgum, grilla í rjóðrum, fara í göngutúr á ströndinni eða ganga á fjöll. Ég var stödd í austurhéruðum Ítalíu á annan í páskum og íhugaði með innfæddum hvert skyldi stefnt. Ég stakk upp á því að fara í rannsóknarferð á jarðskjálftasvæði. Það fannst hinum ekkert sérstök hugmynd, í fyrsta lagi væru mörg svæði í umræddum bæjum beinlínis lokuð vegna hrunhættu, í öðru lagi væri dapurlegt að heimsækja bæi eins og Accumoli og Amatrice, þar sem allt væri ein rjúkandi rúst. En, það voru ekki bæirnir sem ég vildi heimsækja, heldur bæir sem lentu í jarðskjálftunum 1997, fyrir tuttugu árum. Ég dró fram og sýndi þeim gamalt Morgunblaðsviðtal sem ég hafði tekið við fjölskyldu á því svæði, í þorpinu Belvedere, tveimur árum eftir skjálftana ‘97. Fjölskyldan í Belvedere, sem ég heimsótti þá, bjó í gámi, eins og allar hinar tuttugu fjölskyldurnar sem höfðu misst heimili sín. Í tvö ár höfðu þau hafst við í 30 fm kassa, þrír fullorðnir og eitt kornabarn, að vísu komið sér ótrúlega notalega fyrir miðað við aðstæður, en lýstu því hvernig vonin eftir að snúa aftur í gamla húsið dvínaði með hverjum degi, því endurbyggingin þokaðist ekkert. Á nýliðnum öðrum degi páska datt mér sem sagt í hug að vita hvernig ræst hefði úr málum hjá íbúum Belvedere, sem að sumu leyti höfðu þá verið í sömu sporum og eftirlifendur í Amatrice í dag, sem búa í eins konar tjaldborg, gámahúsum og bráðabirgðakofum. En þar sem internetið er með öll svör á okkar dögum, tók mig ekki langan tíma að komast að því að umrædd fjölskylda er flutt burt frá Belvedere og of langt að elta hana upp eftir öllum Ítalíuskaga.

Það var því afráðið að heimsæka engin jarðskjálftasvæði á annan í páskum. Og kannski eins gott, því ekki leið á löngu þar til bæjarstjórinn í Amatrice birtist í sjónvarpsfréttum, þungur á brún. „Burt með alla rústatúrista, vinsamlegast komið ekki hingað til þess að taka sjálfur í rústunum, þetta er ekki staður fyrir afþreyingu.“ Þetta voru skilaboð Sergio Pirozzi, bæjarstjóra, hann hafði sjálfur gengið fram á nokkra aðkomumenn sem voru uppteknir við að taka myndir af sér í rústunum – hann rak þá á brott með harðri hendi. Fréttamenn rifjuðu upp fleiri staði þar sem skeytingarlausir ferðamenn hafa gert sér mat úr ummerkjum harmrænna atburða, t.a.m. strandstað skemmtiferðaskipsins Costa Concordia; myndglaðir túristar létu sér í léttu rúmi liggja að skipsskaðinn kostaði 32 mannslíf.

Gleymum þeim ekki

Við, vinir mínir og ég í austurhéruðunum, prísuðum okkur sæl fyrir að hafa ekki keyrt af stað og mætt bæjarstjóranum í Amatrice. Jafnvel þótt við hefðum reynt að útskýra að erindið væri að athuga með stöðu mála og líðan fólks, hefði það getað komið illa út. Eða hvað – hver er munurinn á því að horfa á vígvöll til að setja sig í spor annarra, eða horfa á vígvöll til þess að segja öðrum frá? Og, er annað hvort, eða hvort tveggja, endilega það sama og að baða sig í ólukku annarra? Um þetta hafa spunnist umræður.

Að sjálfsögðu, og vonandi, halda fréttamenn áfram að heimsækja staði á borð við Amatrice, svo svæðið gleymist ekki, svo fólkið gleymist ekki í gámunum. Aðhaldið felst að einhverju leyti í umfjölluninni. En þegar svona stutt er liðið frá atburðunum er líklega betra að halda sig fjarri ef maður ætlar ekki að vera að gagni – samlíðunina má tjá með öðrum hætti og svo langt sem það nær er pistill í grennd ein tilraun til þess. Íbúar Amatrice eiga ekki skilið að týnast í rykinu, þess vegna hringja þeir kirkjuklukkum sínum. Við þegjum eitt augnablik til þess að hlýða á.