Rússar sagðir vita margt misjafnt um Trump

11.01.2017 - 03:00
epa05708071 US President-elect Donald Trump speaks with journalists in the lobby of Trump Tower, after meeting with LVHM Fashion's Alexandre and Bernard Arnault, New York, New York, USA, 09 January 2017.  EPA/ALBIN LOHR-JONES / POOL
 Mynd: EPA  -  POLARIS IMAGES POOL
CNN sjónvarpsstöðin og fleiri bandarískir fjölmiðlar greindu frá því í gær, að Rússar byggju yfir upplýsingum um Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, sem gætu hæglega reynst honum afar skaðlegar. Var þetta haft eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan ónefndra leyniþjónustustofnana. Trump hefur þegar brugðist við þessum fréttum og sagt þær uppspuna frá rótum. Í frétt CNN segir að upplýsingarnar um Trump varði hvort tveggja fjármál og einkalíf Trumps.

Fjórir háttsettir yfirmenn bandarískra leyniþjónustustofnana hittu þá Trump og Obama á dögunum og fóru yfir fyrirliggjandi upplýsingar um meint innbrot rússneskra leyniþjónustustofnana í tölvukerfi Demókrata, Hillarýar Clintons, kosningaskrifstofu hennar og fleiri aðila, og afskipti R'ussa af kosningunum vestra. Á fundinum lögðu leyniþjónustumennirnir fram 35 blaðsíðna skýrslu, máli sínu til stuðnings.

Samkvæmt heimildarmanni CNN voru þeir Obama og Trump upplýstir um það á þessum sama fundi, að Rússar hefðu einnig orðið sér úti um ýmsar upplýsingar um Trump, sem gætu komið honum illa. Þetta höfðu bandarísku leyniþjónustumennirnir meðal annars eftir breskum kollega sínum, sem fram til þessa hefði ætíð reynst traust heimild. Rússar hefðu hins vegar látið það ógert að leka þeim upplýsingum í aðdraganda kosninganna, sem óneitanlega renndi stoðum undir þá kenningu að markmið þeirra hefði verið að skaða Clinton en hjálpa Trump. Upplýsngarnar um þetta, segir í frétt CNN, hafi hins  vegar ekki verið hluti af opinberu skýrslunni.

Trump brást í gærkvöldi hart  við þessum fréttaflutningi CNN og sagði hann algjöran uppspuna. „FALSKAR FRÉTTIR - ALGJÖRAR PÓLITÍSKAR NORNAVEIÐAR!“ skrifaði verðandi forseti á Twittersíðu sína í gærkvöldi. Talsmenn leyniþjónustunnar hafa fram til þessa hvorki staðfest þessar fréttir né hrakið þær. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV