Rússar draga Smugusamning - 2 milljarðar undir

12.01.2016 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra segir Rússa sýna Íslendingum óbilgirni með viðskiptaþvingunum sínum. Auk þess að setja innflutningsbann á matvæli frá Íslandi dragi þeir að ljúka við nýjan smugusamning sem gæti enn aukið tjón þjóðarbúsins um milljarða.

Í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni kemur fram að tjón þjóðarbúsins getur hlaupið á milljörðum í minni útflutningstekjum, allt eftir lengd bannsins og hversu þungt Rússlandsmarkaður vegur. Skýrslan var rædd í ríkissjórn í dag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist almennt hafa efasemdir um viðskiptaþvinganir en að þátttaka í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum sé óhjákvæmileg afleiðing vestrænnar samvinnu. „Í ljósi þess þá sýnist mér verkefni að sjá hver er staðan núna og reyna að vinda okkur í þau verkefni sem standa út af og stjórnvöld þurfa að svara.“ „Ertu sáttur við þessa niðurstöðu og er eining í ríkisstjórn? Það er einhugur í ríkisstjórninni, já.“

Rússar bæta í þvinganir

Rússar hafa brugðist við með því að banna innflutning á matvælum, meðal annars á makríl og loðnu frá Íslandi. En ýmislegt fleira hangir á spýtunni. „Já, það má segja að Rússar hafi sýnt okkur nokkra óbilgirni, meðal annars með því að fresta því að klára smugusamninginn, svokallaða. Þeir frestuðu viðræðunum fram í febrúar. Ef ekki verður lokið við hann bætist við tjón þjóðarbúsins upp á einhverja tvo milljarða.“

Skoða aðstoð við þær byggðir sem verst verða úti

Sigurður Ingi segir að skoða verði vanda þeirra byggða sem verst verða úti vegna viðskiptaþvingana: „Við höfum auðvitað beint þessu til Byggðastofnunar og byggðalögin hafa verið að skoða hvort þau eru brothætt byggð. Ég hef nefnt að Vopnafjörður kannski breytist úr blómlegri byggð í brothætta en Djúpivogur hefur þurft að glíma við sín áföll í lengri tíma. Þetta hefur verið til meðferðar og skoðunar hjá Byggðastofnun og við munum vinna með þeim að þessu máli.“