Rússabann beit ekki á HB Granda

24.02.2016 - 20:43
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Maack  -  HB Grandi
Hagnaður útgerðarfyrirtækisins HB Granda nam 6,4 milljörðum árið 2015 samkvæmt ársreikningi félagsins sem birtur var í dag. Hagnaður félagsins var því nærri 1,1 milljarði hærri en árið 2014 þrátt fyrir viðskiptabann Rússa á vörur frá Íslandi. Arður sem greiddur er til hluthafa er enda 300 milljónum krónum hærri nú en í fyrra.

Helstu niðurstöður frá árinu 2015 voru birtar á vef félagsins eftir að stjórn HB Granda samþykkti ársreikninginn á stjórnarfundi í dag. Þar kemur meðal annars fram að á síðasta ársfjórðungi 2015 nam hagnaður félagsins 1,8 milljarði - á sama tíma árið 2014 var hann 828 milljónir.   Rússar settu viðskiptabann á vörur frá Íslandi um miðjan ágúst.  

HB Grandi sendi frá sér tilkynningu skömmu eftir að viðskiptabannið var sett á. Félagið taldi að tekjur félagsins gætu lækkað um 10 til 15 milljónir evra vegna viðskiptabannsins - 17 prósent tekna hefðu komið úr viðskiptum við rússneska aðila.

Rússabannið virðist þó ekki hafa haft mikið að segja fyrir rekstur félagsins - arðgreiðsla til hluthafa er til að mynda 300 milljónum krónum hærri nú en hún var á síðasta ári - samþykkt var að greiða hluthöfum 3 milljarða í arð en í fyrra námu arðgreiðslurnar 2,7 milljörðum króna.

Ekki náðist í Vilhjálm Vilhjálmsson, forstjóra HB Granda. 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV