Rubio sækir kjörmenn til Púertó Ríkó

epa05196507 Republican presidential candidate Marco Rubio speaks at the 43rd Annual Conservative Political Action Conference (CPAC) at the Gaylord National Resort & Convention Center in National Harbor, Maryland, USA, 05 March 2016. Republican
 Mynd: EPA
Marco Rubio vann stórsigur í forkosningum repúblikanaflokksins í Púertó Ríkó í dag. Hann hlaut yfir helming atkvæða sem tryggir honum alla kjörmenn í ríkinu. Rubio er sem stendur í þriðja sæti, talsvert á eftir Donald Trump og Ted Cruz, í kapphlaupi repúblikana um útnefningu flokksins fyrir forsetakosningarnar í haust.

Rubio er nú kominn með 151 kjörmann. Cruz er næstur á undan honum með nærri tvöfalt fleiri kjörmenn, eða 300, og Trump leiðir hópinn með 384. Rubio var sá eini af frambjóðendum repúblikanaflokksins sem fór og kynnti framboð sitt í ríkinu, sem er samveldisríki innan Bandaríkjanna með eigin landstjórn. Íbúar eyríkisins eru með bandarískan ríkisborgararétt og fá að taka þátt í forkosningum beggja flokka en geta ekki kosið í forsetakosningunum sjálfum.

Næstu forkosningar repúblikanaflokksins fara fram á þriðjudag á Havaíeyjum, í Idahoríki, Michigan og Missisippi.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV