Romney kýs Cruz gegn Trumpisma

epa04595415 (FILE) A file photo dated 15 March 2013 of former presidential candidate and Governor Mitt Romney waving at the 40th Annual Conservative Political Action Conference (CPAC) at the Gaylord National Resort & Convention Center in National
 Mynd: EPA  -  EPA FILE
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins árið 2012, hvetur kjósendur í forkosningum flokksins í Utah til að greiða öldungadeildarþingmanninum Ted Cruz atkvæði sitt á þriðjudag. Hann segir á Facebook síðu sinni að atkvæði greidd Cruz séu eina leiðin til þess að stöðva Donald Trump í að verða frambjóðandi flokksins í haust.

Romney segir val repúblikanaflokksins nú vera á milli þess sem hann kallar Trumpisma og stefnu repúblikana. Hann segir Trump vaða fram með kynþáttahyggju, kvenhatri, fordómum, útlendingahatri og lágkúru auk hótana og ofbeldis. Nú sé nóg komið. Eina leiðin til þess að velja repúblikana í stað Trump sé að enginn frambjóðenda nái meirihluta fyrir flokksfundinn í sumar. Heppilegasta leiðin til þess sé að kjósa Ted Cruz.

Færslan er ekki stuðningsyfirlýsing við Cruz. Þvert á móti segir hann að honum líki vel við John Kasich, þann þriðja sem eftir er í kapphlaupinu. Staðan sé þó þannig að atkvæði greidd Kasich séu líklegri til þess að greiða götu Trumps. Því ætli hann að kjósa Cruz og hvetur aðra til þess.

 

This week, in the Utah nominating caucus, I will vote for Senator Ted Cruz. Today, there is a contest between Trumpism...

Posted by Mitt Romney on 18. mars 2016

Donald Trump var fljótur að svara fyrir sig á öðrum samfélagsmiðli, Twitter. Þar segir hann Romney ringlaðan og ekkert vita í sinn haus. Hann sé búinn að aðstoða bæði John Kasich og Marco Rubio í kosningabaráttunni og ætli nú að styðja lygalaupinn Cruz. Trump telur það reyndar vera gott fyrir sig sjálfan.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV