Rohingjar flýja enn Mjanmar

14.09.2017 - 16:03
epa06204484 A Rohingya man helps a boy to disembark from a boat on the shore of Naf river as people arrive by boats to Teknaf, Bangladesh, 14 September 2017. Many of the Rohingya fleeing the violence in Myanmar had travelled by boat to find refuge in
 Mynd: EPA-EFE  -  EPA
Sameinuðu þjóðirnar báðu í dag alþjóðasamfélagið um hjálp vegna flóttamannavandans í Bangladess. Stöðugur straumur Rohingja er yfir landamærin frá Mjanmar og samkvæmt fulltrúa Alþjóðastofnunarinnar um fólksflutninga IOM hafa um 10.000 flúið þaðan til Bangladess undanfarinn sólarhring.

Fulltrúi IOM sagði að 389.000 Rohingjar hefðu flúið frá Rakhine-héraði í Mjanmar til Bangladess síðan 25. ágúst. Aðstæður væru slæmar í flóttamannabúðum í Bangladess, enda hefði enginn búist við þessum fjölda á svo stuttum tíma. Alþjóðasamfélagið yrði að bregðast skjótt við.

Fulltrúi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna í Bangladess segir brýnt að fá tjöld, matvæli og hreint vatn handa flóttafólkinu. Hætta sé á að farsóttir blossi þar upp verði ekkert að gert og þær bitni ekki síst á börnum.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hvatti í gær stjórnvöld í Mjanmar til að stöðva aðgerðir hersins gegn Rohingjum í Rakhine, en hermenn hafa verið sakaðir um morð og ýmis ódæðisverk gegn almennum borgurum. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, notaði orðið þjóðernishreinsanir um atburðina í Rakhine.

Í dag samþykkti Evrópuþingið ályktun þar sem þess var krafist að aðgerðum hersins yrði hætt þegar í stað. Þá var Nóbelsverðlaunahafinn Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, hvött til að fordæma athafnir og yfirlýsingar sem ýttu undir hatur á fólki vegna trúar eða kynþáttar.