Risabónusar til starfsmanna gamla Straums

16.02.2016 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: www.flickr.com/kjelljoran
Eignaumsýslufélagið ALMC, sem áður var Straumur Burðarás fjárfestingarbanki, hefur greitt 20-30 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum samanlagt milljarða króna kaupauka. Þetta kemur fram í DV í dag.

Samkvæmt frétt blaðsins var áætlað að bónusarnir væru jafnvirði 3.300 milljóna króna í ársbyrjun 2015 en þeir hafi verið greiddir út í desember. Stærstur hluti bónusgreiðslnanna hafi runnið til nokkurra lykilstjórnenda sem hver um sig hafi fengið greitt jafnvirði hundraða milljóna króna. Þar á meðal sé Óttar Pálsson, lögmaður og eini íslenski stjórnarmaðurinn í félaginu, sem gegndi starfi forstjóra Straums Burðaráss eftir hrun.

Í ágúst 2009 baðst Óttar afsökunar á því í blaðagrein að áætlaðar bónusgreiðslur væru ekki í nægilegum tengslum við íslenskan veruleika. Óttar vildi ekkert láta hafa eftir sér þegar fréttastofa náði í hann í dag. Engar upplýsingar fengust um félagið í símanúmerinu sem gefið er upp á vef þess. Jakob Ásmundsson, einn fyrrum lykilstjórnenda, staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi fengið greiddan kaupauka en segir trúnaðarmál hversu mikinn.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV