Rímar við niðurstöður félagsráðgjafa

20.01.2016 - 16:01
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
„Þetta rímar mjög mikið við niðurstöður sem við höfum verið að skoða til dæmis hverjir það eru sem fá fjárhagsaðstoð frá sveitarfélögum, segir Anni G. Haugen, lektor í félagsráðgjöf, um niðurstöður skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um stöðu barna hér á landi. Þær sýna að börn foreldra sem búa í leiguhúsnæði, hafa ekki fulla vinnu og hafa litla menntun eru meðal þeirra barna sem líða helst skort á Íslandi.

Anni segir ekki síst mikils um vert að í skýrslunni var horft beint á börnin og þeirra hlutskipti en ekki á barnafjölskyldur í heild.

„Þarna eru líka upplýsingar sem koma á óvart og gleðilegar til dæmis börn foreldra af erlendum uppruna þau líða minni skort nú en 2009,“ segir Anni og veltir því fyrir sér hvort hópur innflytjenda hafi breyst síðust ár. Þetta veki forvitni og þurfi að kanna nánar til dæmis hvort þarna skipti máli hvaðan fólk kemur. Hún segist hafa nokkrar áhyggjur af því almennt hversu mjög og ítrekað hafi verið skorið niður í þjónustu við börn.

Næstum tíunda hvert barn á Íslandi líður skort, samkvæmt skýrslunni og næstum fimmta hvert barn foreldra í leiguhúsnæði. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri Barnahjálparinnar, segir að Ísland standi mjög vel í alþjóðlegum samanburði, sem sé mjög gott. Hann segir að Barnahjálpin vilji gjarnan að slík rannsókn verði gerð á hverju ári, sem er ekki staðan í dag. Á hverju ári þurfi að vera hægt að kafa ofan í gögnin og sjá sérstaklega skort barna. Þannig væri hægt að þróa nákvæm inngrip, bæði almenn og sértæk, til að bregðast við.

 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV