„Ríkisstjórn brostinna vona“

21.04.2017 - 09:40
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
Fyrir kjósendur Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er ríkisstjórnin er ríkisstjórn brostinna vona, segir þingmaður Samfylkingarinnar. Kosningaloforð um uppbyggingu velferðarkerfis hafi ekki verið efnd. Þingmaður Viðreisnar, segir erfitt að gera öllum til hæfis í ríkisrekstri. 100 dagar eru liðnir frá því að ríkisstjórnin tók við völdum.

Rætt var við  rætt við Jón Steindór Valdimarsson, þingmann Viðreisnar, og Oddnýju G. Harðardóttur, þingmann Samfylkingarinnar, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. 

„Ég held að það megi segja að fyrir þá sem kusu Viðreisn og Bjarta framtíð, þá sé þessi ríkisstjórn ríkisstjórn brostinna vona. Og fyrir okkur öll hin þá er þetta ríkisstjórn sem er ekki að nýta tækifæri til að byggja upp velferðarkerfi, sem sannarlega þurfti að gera og var lofað. Þetta er hefðbundin hægristjórn sem sveltir opinbera velferðarkerfið. Síðan gerir hún það sem hægristjórnir hafa gert undanfarið, lækka skatta á þenslutímum og selja ríkiseignir og ekki vanda sig við það verk. Þannig að ég get ekki gefið þessari ríkisstjórn góða einkunn eftir þessa 100 daga,“ segir Oddný. 

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, segir erfitt að gera öllum til hæfis þegar ríkisútjöld séu ákveðin. „Á sama tíma og Alþýðusambandið talar um aðför að velferðarkerfinu, þá tala vinnuveitendur um að alltof langt sé gengið í útgjöldum. Einhvers staðar þarna á milli þarf að ná lendingu. Fjármálaráð var að gefa út álit sitt á fjármálaáætluninni. Eitt af því sem þar er gagnrýnt er t.d. þetta, að stjórnin sé of mikið með fótinn á bensíninu ennþá og hafi bara aðeins slakað upp bensínfætinum þegar hún ætti að stíga á bremsurnar. Þannig að það gefur til kynna að Fjármálaráðið telji að aðhaldið í fjármálaáætluninni sé ekki nægt, þannig að það stangast nú svolítið á þar,“ segir Jón Steindór.