Ríkið selur hlut sinn í bönkunum

16.03.2012 - 16:38
Mynd með færslu
Bankasýsla ríkisins stefnir að því að selja eignarhlut sinn í Íslandsbanka síðar á þessu ári. Stofnunin gerir ekki ráð fyrir að leggja til, að sala eignarhluta í Arion banka og Landsbankanum geti hafist fyrr en á næsta ári.

Bankasýsla ríkisins var stofnuð til að fara með eignarhlut ríkisins í bönkunum eftir að þeir féllu. Hlutirnir eru þó mjög misstórir. Bankasýslan á 5% í Íslandsbanka, 13% í Arion banka, og 81% í Landsbankanum.

Þarna eru ekki lágar fjárhæðir í tafli, því í árslok námu kröfur ríkisins á fjármálafyrirtækin 200 milljörðum króna, eða fimmtungi af heildareignum ríkissjóðs.

Bankasýslan hefur nú markað sér stefnu um hvernig eigi að standa að sölu þessara eignarhluta. Hún var kynnt á ríkisstjórnarfundi í dag. Samkvæmt henni verður Íslandsbankahluturinn seldur fyrstur. Það verði þó í fyrsta lagi á síðari hluta þessa árs. Hann er metinn á rúma sex milljarða króna. Ekki er gert ráð fyrir að eignarhlutarnir í Arion banka og Landsbankanum verði seldir fyrr en á næsta ári. Salan í Landsbankanum verði jafnvel framkvæmd í nokkrum áföngum. Hlutur ríkisins í Arion banka er metinn á tæpa tíu milljarða, og hluturinn í Landsbankanum á 122 milljarða króna.