Ríkið og Þjóðskrá sýknuð í staðgöngumáli

02.03.2016 - 22:46
Ólétt kona.
 Mynd: birkfoto  -  Freeimages
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag íslenska ríkið og Þjóðskrá Íslands í staðgöngumæðrunarmáli. Málið snerist um dreng sem getinn var með tæknifrjóvgun í Bandaríkjunum með gjafa eggi og gjafasæði fyrir íslenskt par.

Synjunin var byggð á því að foreldrastaða kvennanna var ekki viðurkennd.

Konurnar kröfðust ógildingar á úrskurði innanríkisráðuneytisins frá því í lok mars 2014, þar sem staðfest var ákvörðun Þjóðskrár Íslands, þar sem hafnað var beiðni þeirra um að drengurinn yrði skráður í þjóðskrá. Jafnframt kröfðust konurnar þess að viðurkennd yrði með dómi skylda Þjóðskrár Íslands til þess að skrá þær sem foreldra drengsins í samræmi við fæðingarvottorð hans, útgefið í mars 2013 í Riverside-sýslu í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum.

Drengurinn var getinn með tæknifrjóvgun þar sem notað var gjafa egg og gjafa sæði. Fósturvísinum var komið fyrir í legi bandarískrar konu sem gekk með hann og fæddi síðan í febrúar 2013.  Drengurinn er fæddur í Bandaríkjunum og fékk því bandarískt ríkisfang við fæðingu. Hann fékk íslenskan ríkisborgararétt á gamlársdag. Í dóminum kemur fram að þar sem bæði gjafa egg og sæði hafi verið notað og staðgöngumæðrun, teljist hvorug konan, samkvæmt íslenskum lögum, vera móðir barnsins. Þá kom fram fyrir dómi að staðgöngumóðirin hafi þegið greiðslu fyrir þau afnot af líkama sínum sem fólust í því að ganga með og ala barn sem ekki var hennar.  Fram kemur í dóminum að konan afsalaði sér tilkalli til barnsins skömmu eftir fæðingu. 

Hagsmunir barns megni ekki að breyta konu í móður

Afdráttarlaust bann er við staðgöngumæðrun í íslenskum lögum og varða brot sektum eða allt að þriggja mánaða fangelsi ef brotið er framið hér á landi.  Þá segir að foreldratengslum „sem er komið á erlendis með háttsemi sem er bönnuð hér á landi að viðlagðri refsingu gengur aftur á móti í berhögg við grunnreglur íslensks réttar. Með því að viðurkenna slík foreldratengsl, þó að til þeirra sé stofnað á löglegan hátt erlendis, er opnað á möguleika þeirra sem hér eru búsettir til að sniðganga framangreint bann. Þessi aðstaða gefur íslenskum stjórnvöldum lögmætt tilefni til að hafna gildi erlendrar stjórnvalds- eða dómsúrlausnar, sem ella ákvarðar persónulega stöðu viðkomandi“.

Dómurinn segir að reynt hafi verið að draga úr þeim vandkvæðum sem leitt hafi af kærðu ákvörðuninni. Með fóstursamningi hafi verið tryggt að drengurinn nyti umönnunar foreldra sinna. Hann hafi síðan fengið dvalarleyfi, verið skráður í þjóðskrá og fengið kennitölu og síðan ríkisborgarrétt á gamlársdag. Í dóminum segir að með veitingu íslensks ríkisborgararétts hafi verið rutt úr vegi ýmsum þeim hindrunum sem foreldrar drengsins vísa til að hafi torveldað barninu að fá stöðu sína í íslensku samfélagi viðurkennda. Þá er upplýst að konurnar hafi sótt um leyfi til að ættleiða drenginn. Þær hafi þó slitið samvistum áður en ættleiðing gekk í gegn.  

Dómurinn segir að lögbundin skylda til að skrá barn í þjóðskrá þegar eftir fæðingu hafi ekki leitt til þess að móðerni og faðerni drengsins á grundvelli fæðingarvottorðs hans yrði viðurkennt með þeim afleiðingum að hann öðlaðist sjálfkrafa íslenskan ríkisborgararétt. 

Íslenska ríkið og þjóðskrá voru því sýknuð. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV