Ríkið dæmt til að greiða 6,5 milljónir

18.01.2016 - 12:56
Héraðsdómur Reykjavíkur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi fyrir helgi íslenska ríkið til að greiða konu 6,5 milljónir fyrir ólögmæta uppsögn. Konunni var sagt upp störfum þegar í ljós kom að hún hafði flett upp málum sem tengdust fyrrverandi eiginmanni hennar. Héraðsdómur taldi að veita hefði átt konunni áminningu - framganga vinnuveitandans við uppsögnina hefði verið meiðandi og falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart konunni.

Dómurinn telur upplýst að konan hafi flett upp og skoðað mál fyrrverandi eiginmanns síns. Ekki hefði verið sannað að það hafi í öllum tilvikum verið gert viljandi. Ósannað væri að konan hefði notfært sé upplýsingar sem hún hefði haft aðgang að í starf sínu í fjárhagslega þágu eða til skaða fyrir vinnustaðinn.

Héraðsdómur taldi að áminning hefði átt að nægja og með því að rifta ráðningarsamningi hefði vinnustaðurinn brotið gegn skýrum fyrirmælum um starfslok. Konunni hefði átt að gefast færi á að bæta ráð sitt - uppsögnin væri því ólögmæt og konan ætti rétt á skaðabótum.

Dómurinn gerir alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að uppsögn konunnar - henni hafi verið gert að taka saman og yfirgefa vinnustað sinni fyrirvaralaust að viðstöddum samstarfsmönnum. Hún hafi meðal annars þurft að leita til sálfræðings eftir það áfall og  eigi því einnig rétt á miskabótum.

Dómurinn nefnir að konunni hafi reynst erfitt að fá starf sem hæft gæti menntun hennar. Hún hafi þó nýtt tímann til að stunda meistaranám í lögfræði „en ekki verður horft fram hjá því að nokkurt atvinnuleysi er nú meðal lögfræðinga,“ eins og það er orðað í dómi héraðsdóms.

Dómurinn dæmdi því íslenska ríkið til að greiða konunni 6 milljónir í skaðabætur og 500 þúsund í miskabætur - samtals 6,5 milljónir íslenskra króna. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV